fbpx

FALLEGT ÍSLENSKT HEIMILI // ÁLFTAMÝRI

Íslensk heimili

Fallegt íslenskt heimili sem heillar er tilvalið að skoða á þessum fína (rigningar) föstudegi. Þessi 80 fm 3ja herbergja íbúð er mikið endurnýjuð og er nú komin á sölu fyrir áhugasama. Eldhúsið er sérstaklega skemmtilegt með flísalögðum veggjum og sætum borðkrók. Barnaherbergið er líka dásamlegt með hálfmáluðum grænum veggjum og Hansa hillum.

Kíkjum í heimsókn –

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Fleiri upplýsingar varðandi eignina má sjá hér – 

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

NORSKUR ÁHRIFAVALDUR SELUR LITRÍKT HEIMILI

Heimili

Nina Sandbech er smekkdama mikil og er á meðal fremstu áhrifavalda í Noregi. Hún er þekkt fyrir litríkan og líflegan stíl sem endurspeglast skemmtilega á heimili hennar í Osló sem nú er til sölu. Bleikir og grænir litatónar einkenna heimilið og útkoman er algjört æði. Elísabet okkar Gunnars benti mér á þetta fallega heimili en hún hefur ferðast með Ninu á vegum H&M. Þessi litagleði hittir mig beint í hjartað og að sjálfsögðu er daman með bleikt eldhús!

Kíkjum í heimsókn –

       

Myndir // Finn.no

Fylgdu Ninu einnig á Instagram með því að smella hér

PH5 LJÓSIÐ VÆNTANLEGT Í MONOCHROME

FréttirHönnun

Ein af mest spennandi haustfréttunum úr hönnunarheiminum er þessi hér – klassíska PH5 ljósið sem allir þekkja kemur nú út í fyrsta sinn í monochrome útgáfu eða einlitað, bæði stangir og skermur í annaðhvort hvítu, svörtu eða skærbláu sem mun án efa gleðja marga.

PH5 ljósið, hannað af Poul Henningsen og framleitt af Louis Poulsen kom fyrst á markað árið 1958 og þótti vera byltingarkennd hönnun, hefur sannarlega staðist tímans tönn og er í dag heimsþekkt hönnunartákn. Poul Henningsen nefndi ljósið PH5 vegna þess að þvermálið á efsta skerminum er 50 cm en ljósið var hannað til þess að hanga yfir borði og á sama tíma gefa hóflega birtu í umhverfið í kring. PH5 hefur verið framleitt í fjölmörgum litum síðustu áratugi og verður spennandi að sjá viðtökur á þessari nýju útgáfu. Hingað til hefur PH5 í hvítu verið mest eftirsótt en aðeins fáanlegt í white classic sem er með bláu inní og bláum stöngum og white modern sem er með bleiku inní og koparstöngum.

Það hefur því lengi verið beðið eftir alhvítum PH5 en bláa og svarta eru líka mjög smart.

 

Myndir // Louis Poulsen

Fyrir áhugasama þá forvitnaðist ég aðeins um ljósið hjá Epal og kemur PH5 Monochrome til landsins um miðjan október.

Hvernig lýst ykkur á þessar fréttir?

EINSTAKT HEIMILI ELÍSABETAR ÖLMU & FJÖLSKYLDU

BaðherbergiHeimiliÍslensk heimiliList

Hér er á ferð æðislega fallegt heimili fullt af íslenskri list og vandaðri hönnun. Elísabet Alma Svendsen smekksdama býr hér ásamt fjölskyldu sinni en hún er hönnuður og listrænn ráðgjafi og eigandi Listval sem er ráðgjafarþjónusta sem aðstoðar við myndlistarval. Ótrúlega spennandi þjónusta verð ég nú að segja – vonandi mun ég nýta mér hana einn daginn en eins og sjá má þá er Elísabet Alma með einstaklega gott auga fyrir því sem er fallegt. Sjáið þetta dásamlega heimili sem hún hefur skapað fjölskyldunni.

Fyrir áhugasama þá er húsið, sem staðsett er á Seltjarnarnesi nú komið á sölu, smellið hér fyrir fleiri upplýsingar. 

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Þvílíkur draumur – allt svo dásamlega fallegt. Baðherbergið er með því fallegra sem ég hef séð, sólstofan er æðisleg og svo öll listaverkin sem eru algjörlega punkturinn yfir i-ið.

HLÝLEGUR & PERSÓNULEGUR STÍLL

Heimili

Ég féll fyrir þessu heimili þegar ég sá eldhúsið sem er einstaklega sjarmerandi, bleik Flower Pot ljós eftir Verner Panton hanga yfir innréttingunni sem gefa eldhúsinu mikinn karakter en oftar sjáum við ljóskastara sem vinnuljós í eldhúsi. Veggirnir eru í grá-græn-brúnum lit (haha) sem teygir sig yfir í öll rými heimilisins sem gefur svo fágað yfirbragð. Heimilið er hlýlegt og með persónulegan stíl, ég er mjög hrifin af gamla glerskápnum yfir sófanum og háu vegglistarnir eru líka algjör draumur.

Kíkjum í heimsókn –

Myndir // My Scandinavian Home

Ég elska svona óræða og mjúka liti … hvorki grátt né grænt, heldur fullkomin blanda með dass af brúnum! Og svo þegar liturinn teygir anga sína yfir í fleiri en eitt rými verður útkoman nánast án undantekninga algjört æði! Hvað finnst ykkur?

LÍTIL & SMART 60 FM RISÍBÚÐ

Heimili

Hér er á ferð hrikalega hugguleg 60 fm íbúð í risi þar sem vel hefur verið hugað að hverju smáatriði. Svefnherbergið er sérstaklega fallegt með veggfóðruðum fataskáp sem gerir herbergið svo hlýlegt, en það er sniðug lausn að nýta skápahurðar líka í litlum herbergjum eins og þessu. Birtan flæðir inn um þakglugga og plöntur skreyta hvert horn. Kíkjum í heimsókn –

Myndir : Alvhem

Litli garðskikinn er algjört æði með luktir hangandi í trjánum sem skapa góða stemmingu. Fyrir áhugasama um veggfóðrið í svefnherberginu og á sjónvarpsveggnum þá fæst samskonar hjá Sérefni hérlendis í miklu úrvali – svo smart! Er einmitt að íhuga að veggfóðra smá í einu herbergi hér heima…

LITRÍKT Í MÁVAHLÍÐ HJÁ HÖNNUÐI

Íslensk heimili

Það getur varla annað verið en að hér sé gaman að búa og ætli litavalið lýsi ekki eigandanum vel – jákvæð og hressleikinn uppmálaður. Ég væri að minnsta kosti glöð að vakna hér í þessari litríku og fallegu 3ja herbergja risíbúð í hlíðunum sem nú er komin á sölu fyrir áhugasama.

Kíkjum í heimsókn –

 

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Ljósmyndir : Fasteignaljósmyndun.is

Fyrir frekari upplýsingar um eignina smelltu þá hér.

Allt sem er gult gult finnst mér vera fallegt … ♡

FALLEGT HEIMILI MEÐ ÆVINTÝRALEGU BARNAHERBERGI

BarnaherbergiDIYHeimili

Hér er á ferð dásamlegt sænskt heimili sem staðsett er í Gautaborg. Látlaus skandinavískur stíllinn heillar en barnaherbergið toppar allt – rúminu hefur nefnilega verið breytt í fallegt hús með leiklofti og litavalið í herberginu minnir á Astrid Lindgren ævintýri. Eitt veit ég þó, það ef sonur minn læsi bloggið mitt þá yrði suðað um svona rúm út árið…

Kíkjum í heimsókn –

 

Myndir : Kvarteret Mäkleri

HEIMILIS HUGMYNDIR FYRIR HAUSTIÐ

EldhúsHeimiliSvefnherbergi

Þrátt fyrir að flest okkar séum enn á ferðalögum um landið í sumarfríum er gott að staldra við með kannski einn kaffibolla í morgunsárið og sækja sér smá heimilisinnblástur. Þar sem sumarið fer að líða undir lok er tilvalið að byrja að huga að því núna hvað við ætlum að gera fyrir heimilið í haust – sem er minn uppáhaldstími til að gera & græja. Punkta niður hugmyndir að nýjum litum á veggi, nýjar uppraðanir fyrir húsgögn og hillur eða jafnvel stórkostlegar breytingar.

Þetta fallega heimili veitir innblástur. Gluggaveggurinn sem aðskilur eldhús og stofu er sérstaklega smart, það er líklega ekkert of flókið að útbúa svona vegg og myndi gjörbreyta hvaða heimili sem er. Ég er einnig orðin mjög spennt fyrir því að prófa að setja lista á veggi í t.d. svefnherberginu, það gerir rýmið svo sjarmerandi.

Kíkjum í heimsókn –

Myndir // Entrance Makleri

Ég vona annars að þið séuð að njóta síðustu daga sumarsins. Ég er svo sannarlega að því:)

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu