MÚMÍN VETRARBOLLINN 2017

Hönnun

Ég ætlaði bara rétt að kíkja hingað inn í kvöld eftir mjög langan afmælisstússdag, þið sáuð mörg frá deginum á Svartahvitu snappinu og ég er ansi þreytt en glöð eftir daginn og almáttugur hvað Bjartur er í skýjunum með daginn sinn. Ég er þó enn í smá áfalli að hafa haldið all in Spiderman afmæli en gleðin hjá einu barni að hafa fengið að velja þetta svona mikið sjálfur gerir þetta allt þess virði.

Ég stóðst þó ekki mátið að skella í eina færslu í kvöld og sýna ykkur sæta Múmín vetrarbollann sem er væntanlegur í byrjun október. Ég vel mjög vandlega núna þá bolla sem ég bæti við safnið en eruð þið að sjá hvað þessi er gordjöss? Mér finnst þessi hreinlega vera einn af þeim allra fallegustu.

Góða helgi!

LITUR ÁRSINS 2018 FRÁ NORDSJÖ: BLEIKUR HEART WOOD

Fyrir heimilið

Má bjóða ykkur að sjá lit ársins 2018 að mati Nordsjö sem er eitt af þekktari málningarfyrirtækjunum í Skandinavíu. Liturinn sem ber heitið Heart Wood er hlýlegur bleikur litur með smá gráum tón í og kemur mér ekkert á óvart að uppáhalds bleiki liturinn minn haldi áfram sigurför sinni um heiminn ♡

Myndir via Nordsjö

Eins og sjá má á þessum myndum er liturinn nokkuð fjölhæfur og hægt að nota á ólík rými og para saman við margar litapallettur. Ég er sérstaklega hrifin af bleika litnum á svefnherbergið og held það sé ekki annað hægt en að sofa vel þar. Fyrir áhugasama þá er Sérefni með umboðið fyrir Nordsjö á Íslandi en þar er einmitt hægt að fá Svönubleika litinn ♡

HELGARINNLIT : SKANDINAVÍSKUR DRAUMUR

Heimili

Ég er svo innilega glöð að það sé komin helgi enda mjög löng vika að baki sem einkenndist af mikilli vinnu. Mest hefði ég viljað fara upp í bústaðinn góða og ná að núllstillast en það þarf að bíða betri tíma, Bjartur minn fékk þó að fara þangað með ömmu sinni og afa. Talandi um Bjart Elías, þá á hann 3ja ára afmæli í næstu viku og í þessum skrifuðu orðum ligg ég yfir vefsíðum í leit að afmælisgjöf sem hittir í mark hjá einum sem elskar ofurhetjur en 4 daga fyrirvari er víst ekki mjög langur í heimi netverslana haha. Sjáum hverju mamman nær að redda!

Yfir í annað – fallegt innlit á þessari góðu helgi. Það er svo mikið haust í loftinu sem ég elska, kíkti einmitt í blómaverslun í dag og keypti mér fallegar Erikur til að hafa við útihurðina – alveg fullkomin haustblóm. Sýnist þau vera á tilboði í mörgum blómabúðum, mæli með:) En kíkjum þá á þetta fallega skandinavíska draumaheimili…

Via My Scandinavian Home

Virkilega fallegt heimili sem er smekklega innréttað, ég kann virkilega vel að meta grafísk smáatriðin og mynstrin sem eru góð andstæða við hvítan grunninn, þ.e. fyrir utan fallegu veggfóðruðu stofuna. Hér gæti ég aldeilis búið!

Eigið ljúfa helgi ♡

 

FALLEGASTA SNYRTIVÖRUVERSLUNIN : NOLA

HönnunÍslensk hönnun

Ykkur gæti þótt það óvenjulegt að ég skrifi um snyrtivöruverslun en þessi fallega íslenska verslun er svo einstaklega vel hönnuð (og bleik) að ég hreinlega get ekki sleppt því að birta þessar myndir. Við erum að tala um NOLA sem er staðsett á Höfðatorgi en það voru þau Karitas og Hafsteinn hjá HAF sem hönnuðu verslunina í fyrra en þó voru þessar myndir aðeins teknar núna nýlega og eru þær alveg brakandi ferskar.

Þvílík draumaverslun og alveg er ég viss um að þessar myndir eigi eftir að flakka víða og veita mörgum innblástur. Ég fer alveg á flug þegar ég sé svona bleik og falleg rými. Enn ein fjöður í hatt HAF hjóna sem innan skamms opna sína fyrstu verslun – ég fæ að segja ykkur betur frá því sem fyrst. En þið getið byrjað að ímynda ykkur hversu falleg sú verslun verður!

Ljósmyndari: Gunnar Sverrisson 

Hversu dásamlega falleg er þessi verslun og hönnunin alveg á heimsmælikvarða ♡ Það er hún Karin Kristjana Hindborg sem á Nola og ef ykkur langar til að sjá vöruúrvalið þá mæli ég með Nola.is eða að kíkja hreinlega í heimsókn. Ef ykkur líkaði við þessa færslu megið þið gjarnan smella á like-hnappinn eða á hjartað hér að neðan. Eigið góða helgi!

ÓSKALISTINN : SEPTEMBER

HönnunÓskalistinn

Óskalistinn að þessu sinni er stuttur – þó svo að ég geti auðveldlega fyllt heila bók af hlutum sem ég hef augun á. Stundum birti ég sömu vörurnar nokkrum sinnum sem mér finnst virka sem ágætis áminning fyrir mig sjálfa, það þýðir sumsé að hluturinn er mjög ofarlega á listanum. Það á einmitt við um plakatið eftir Kristinu Krogh sem ég ætla að panta á næstu dögum ásamt því að röndótt Pappelina motta frá Kokku hef ég lengi ætlað að næla mér í. Ég keypti tvær Pappelina mottur í bústaðinn í vor og gat ekki leyft mér kaup á þeirri þriðju í sömu ferð en þessi hvíta fær pláss í eldhúsinu þegar hún verður mín.

Hinsvegar er ég orðin hrikalega spennt fyrir nýju Aalto línunni frá Iittala sem er væntanleg og þessar koparskálar eru eitthvað sem ég verð að skoða betur. Þvílík dásemd sem þær eru, ég kem til með að sýna ykkur svo alla línuna í heild sinni. Nýr Flower Pot lampi er einnig á listanum eftir að minn svarti skemmdist í tjóni, en þar sem svartur er hættur í framleiðslu hef ég ekki skipt honum út vegna valkvíða um nýjan lit – þessi úr stáli er líklegur til vinnings. Að auki verð ég að nefna fallegu Gloria geómetrísku kertastjakana frá Winston Living en ég kíkti nýlega til þeirra í heimsókn á Snapchat þar sem ég sýndi ykkur þessa stjaka. Og síðast en alls ekki síst er þessi unaðslegi kolkrabba kertastjaki frá sænsku versluninni Artilleriet, ég elska hvað hann er óvenjulegur og skrítinn og yrði svo glöð ef hann rataði heim til mín einn daginn í framtíðinni.

Er eitthvað hérna sem er einnig á þínum óskalista? Ég veit ekki hvað það er en ég elska að setja saman svona lista og láta mig dreyma…