fbpx

ÓMÓTSTÆÐILEGAR 2019 NÝJUNGAR FRÁ IITTALA

iittalaÓskalistinn

Iittala tekst enn eina ferðina að heilla okkur upp úr skónum með spennandi nýjungum sem kynntar eru til sögunnar um þessar mundir. Ég var búin að sjá myndirnar en í dag gerði ég mér leið í verslun til að skoða vörurnar og þær eru vægast sagt hrikalega flottar og nú þegar að minnsta kosti ein þeirra komin ofarlega á óskalistann. Litur ársins 2019 – glæný borðbúnaðarlína og hrikalega djúsí bleikur litur er að bætast við vöruúrval frá finnska hönnunarrisanum sem við öll elskum ♡ Skoðum þetta saman, 

Til að byrja með þá bættist nýr litur við klassísku Teema línuna sem ber heitið Powder og er ljósbleikur og alveg hreint geggjaður litur. En einn af styrkleikum Teema vörulínunnar er fallegir litir og þær skemmtilegu litasamsetningar sem hægt er að raða saman með ólíkum Teema litum. Litir eru uppfærðir reglulega til að halda Teema litasamsetningunum í samræmi við tískustrauma hverju sinni.

“Liturinn powder er fágaður, heitur og hlutlaus litur sem hefur fallega mýkt. Hann er góður bakgrunnur undir öll litríku innihaldsefnin sem hægt er að nota í matargerð ásamt því sem hann leyfir matnum að njóta sín.”

Ásamt þessum spennandi nýja bleika lit kynnir iittala til sögunnar nýja borðbúnaðarlínu sem hönnuð er af Jasper Morrison sem er heimsþekktur vöru- og húsgagnahönnuður sem unnið hefur fyrir m.a. Vitra, Alessi, Rosenthal, Muji og Flos.

“Línan, sem ber heitið Raami, er einföld, og falleg borðbúnaðarlína sem hentar vel þegar skapa á gott andrúmsloft. Önnum kafnir einstaklingar kunna flestir vel að meta frjálslegt andrúmsloft og afslappaðar samkomur í stað formlegra matarboða. Þeir kunna að meta fjölnota borðbúnað sem hjálpar til við að skapa góða stemningu hvort sem er við morgun-, hádegis- eða kvöldverðinn. Finnska orðið Raami merkir rammi eða umgerð, en segja má að vörulínan rammi inn stemninguna við matarborðið. Raami borðbúnaðurinn er lágstemmdur og tekur ekki athyglina heldur skilur eftir rými fyrir stemninguna, matinn, drykkina og ímyndunaraflið.”

Síðast en ekki síst er það litur ársins 2019 hjá Iittala sem er ótrúlega fallegur sjávarblár – Sea Blue.

“Liturinn Sea Blue er litur ársins 2019 hjá Iittala. Í Finnlandi eru þúsundir vatna ásamt því sem það hefur langar strendur sem snúa að Eystrasaltinu.  Finnar finna því ákveðna tenginu við vatnið ásamt því sem það er lífsviðurværi margra. Vatn eða sumarhús við sjóinn er nauðsynlegur hluti finnska sumarsins, en flest sumarfrí snúast að miklu leiti um vatn, svo sem sundferðir, gufuböð, veiði, kanósiglingar, róður og fleira. Liturinn Sea blue vísar í sólríkan dag í fallegum eyjaklasa og kvöldsund eftir notalegt gufubað. Einstaklega afslappandi!”

Liturinn Sea blue hefur verið í framleiðslu frá því í byrjun ársins 2000 en í ár verða fjölmargar nýjar vörur framleiddar í þessum frísklega lit. Þar má helst nefna Kastehelmi glas, disk skál og krukku, Aino Aalto glös, Kartio karöflu, Aalto vasa í nokkrum stærðum og Kaasa kertastjakann.

Myndir : Iittala press

Ég hreinlega get ekki beðið eftir að eignast nokkrar af þessum nýjungum en ég er eldheitur iittala aðdáandi eins og einhver ykkar vita nú þegar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

DRAUMAHEIMILI FULLT AF KLASSÍSKRI HÖNNUN

Skrifa Innlegg