HVAÐ HÖFUM VIÐ GERT?

Umfjöllun

Undanfarnar 10 vikur hef ég setið sem límd við skjáinn á mánudagskvöldum og horft á “Hvað höfum við gert” heimildarþættina á RÚV í stjórn Sævars Helga Bragasonar. Ég hef verið dugleg að minnast á þáttinn við mitt fólk og reynt að hvetja til áhorfs en þættirnir snertu svo sannarlega við mér og hef ég í kjölfarið orðið töluvert meðvitaðri um neysluhyggju, sóun og sjálfbærni. Þættirnir eru á mannamáli og ef þið hafið ekki kíkt á þá hingað til þá vil ég hvetja ykkur til þess – það ætti nánast að vera skylduáhorf. – Smellið hér til að finna þættina – 

Mér finnst áhugavert þegar bent er á að það þurfa ekki allir að vera fullkomnir þegar kemur að því að vera umhverfisvænir en það þurfa þó allir að gera eitthvað. 

Eftir hvern þátt höfum við rætt smá saman um hvað við getum gert til að leggja okkar að mörkum og það er svo sannarlega í mörg horn að líta. Hvort sem það kemur að matarsóun, flokkun á rusli, velja sjálfbærar og umhverfisvænar vörur framyfir aðrar þegar við á, laga hluti og föt í stað þess að kaupa alltaf nýtt, labba og hjóla meira, neyta ekki dýraafurða x daga í viku, velja gæði framyfir ódýra hluti með stuttan líftíma, minnka plastnotkun, og taka alltaf með poka í búðina?

Ég er langt frá því fullkomin í þessum málum en er þó vakandi núna og farin að horfa betur á mína lifnaðarhætti. Ég reyni mitt besta að leggja mikla áherslu á gæði og vandaðar vörur sem ég get átt helst í lífstíð, bestar eru að sjálfsögðu staðbundnar vörur þó það sé ekki alltaf möguleiki.

Hafið þið áhuga á að ég taki saman vörur fyrir heimilið sem uppfylla einhverjar af þessum kröfum, sjálfbærar, lífrænar, staðbundar og umhverfisvænar? Ég sjálf er orðin forvitin að kynna mér úrvalið:)

Ég gerði nefnilega könnun á Instagram hjá mér nýlega og bað um ráð varðandi vörumerki, verslanir eða slíkt sem væri betra fyrir umhverfið og það voru mjög litlar undirtektir, nánast eins og enginn af þeim nokkur þúsundum fylgjenda sem sáu spurninguna, hefðu hreinlega áhuga á umhverfisvænum vörum… en vonandi bara vegna þess að okkur vantar hugmyndir! 

Mér þætti gaman að heyra frá ykkur um ráð sem auðvelt er að tileinka sér hvað hægt er að gera betur, því við þurfum jú öll að gera eitthvað.

Þessir litlu hlutir sem ég hef verið að tileinka mér undanfarið er helst matarsóun (erum að prófa áskrift hjá Eldum Rétt), og ég er einnig orðin meistari í að flokka rusl hvort sem það sé heima, í bílnum eða í bústað. Einnig er ég farin að upplifa nýja tilfinningu sem ég kýs að kalla “umhverfissamviskubit” en það er ef ég gleymi fjölnota poka í búðinni. Þá er ekkert annað í stöðunni en að taka hlutina í fangið og labba pokalaus út í bíl.

Nýju nágrannarnir mínir eru ofur umhverfisvæn og hef ég fengið góðar hugmyndir frá þeim, t.d. með það að ef þú gleymir poka þá þarf bara að gjöra svo vel og skella vörunum aftur í kerru, keyra að bílnum og raða svo þar í fjölnota pokann haha. Því það gerir víst engum greiða að kaupa bara annan fjölnota poka -brilliant! Þið getið fylgst með henni Gunnellu á Instagram en hún heldur úti síðunni Hreinsum Hafnarfjörð @hreinsumhafnarfjord

Ýmislegt annað hefur týnst til hjá mér varðandi betri siði sem ég tek fagnandi á móti, en vil þó minna á að þessi færsla á ekki að vera um mig, því ég er aldeilis ekki fullkomin í þessum málum en hef þó núna áhuga á að gera betur sem ég vona að þið séuð sammála mér með.

Smellið endilega á hjartað eða líkar við hnappinn hér að neðan ef þú hefur áhuga á fleiri færslum í þessum anda ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝTT & FALLEGT FRÁ BITZ // GLERLÍNA TIL STYRKTAR BÖRNUM Í MALAVÍ

Skrifa Innlegg

9 Skilaboð

 1. Anna

  22. May 2019

  Já það væri geggjað ef þú myndir skrifa meira um umhverfismál innan tísku og hönnunar geirans. Mér finnst algjörlega vanta umfjöllun um slíkt. Það er svo mikilvægt að allir reyni að temja sér umhverfisvænni neysluvenjur♻️♻️♻️

 2. Erla

  22. May 2019

  Væri frábært ef þú myndir fjalla um umhverfisvænni valkosti!

 3. Hrönn Ívarsdóttir

  22. May 2019

  flott grein og gott að sjá að bloggarar og áhrifavaldar eru farnir að hugsa um þessi mál. Ég vil meina að áhrifavaldar ýti undir neyslu því það er stöðugt verið að kynna það nýjasta og flottasta sem við viljum öll eignast. Nýtni og hagsýni er vonandi það sem koma skal, við þurfum ekki allt þetta dót :)

 4. Una

  22. May 2019

  Vistvera í Grímsbæ er flott lítil búð með allskonar umhverfisvænum vörum👌🏼 Það sem ég er mest lost með eru pakkningar utan af matvöru og annari neysluvöru, langar að sjá flokkunarílátin fyllast miklu hægar. En það eru sennilega ekki margir ef einhverjir á Íslandi sem bjóða hrávöru í ílát sem maður mætir með🧐

 5. Gunni

  23. May 2019

  Frábær færsla…svo má auðvitað ekki gleyma umhvefisvænu kaffidrykkjunni :)

 6. A

  23. May 2019

  Kaupa second hand er gott ráð :)

 7. Guðrún Ýr

  23. May 2019

  Styð það svo innilega að þú fjallir meira um umhverfismál- er svo mikilvægt <3

 8. Ólöf

  15. June 2019

  Ég hefði mjög gaman af fleiri færslum í þessum túr.
  Væri líka mjög til í sjá lista yfir vörurnar sem þú talar um.