2018 VERÐUR BESTA ÁRIÐ

Persónulegt

Gleðilegt nýtt ár ♡

Að venju hef ég eytt síðustu dögum í að fara yfir í huganum hvernig ég get gert 2018 að góðu ári og hvernig ég muni gera sem best úr nokkrum verkefnum sem ég stend frammi fyrir í dag.

Ég veit að ég stend ekki ein í þessum sporum svona í byrjun árs að huga að markmiðasetningu og langar því að fara yfir það sem hefur reynst mér vel, efst á listanum er Dale Carnegie námskeið sem ég fór á árið 2015 …

Það er nefnilega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir sjálfa mig og má einnig segja að allt hafi farið upp á við eftir námskeiðið.

Það var nefnilega þannig með mig eins og eflaust einhverjir geta tengt við að verðmiðinn var dálítil hindrun fyrir mig og beið ég því í mörg ár með að skrá mig. Ég tengi mjög persónulega við Dale Carnegie, mamma tók þetta námskeið alla leið þegar ég var unglingur um 17 ára gömul og varð síðar meir aðstoðarþjálfari á öðrum námskeiðum svo ég fylgdist með henni æfa sig á kvöldin og var einnig hvött á þeim tímapunkti af foreldrum mínum að fara á námskeið til að efla sjálfsmynd mína sem ég þáði ekki enda þótti mér, gelgjunni sjálfri það alveg glötuð hugmynd.

Ef það er eitthvað sem ég sé eftir þá er það að hafa ekki farið fyrr en það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að mér tókst að mana mig á dagsnámskeið hjá þeim og fór svo loksins á heilt Dale Carnegie námskeið þegar Bjartur Elías sonur minn var rúmlega hálfs árs gamall, og var hann líklega besta hvatningin sem ég fékk til þess að langa til að verða besta útgáfan af sjálfri mér.

Upphaflega horfði ég mest í það að vilja efla sjálfstraust, samskipti, tjáningu og minnka streitu en á þessum tíma var ég að stíga upp úr meðgönguþunglyndi og vantaði eitthvað gott verkfæri til að koma mér almennilega í gang aftur. Mig hefði þó seint grunað hversu mikill ávinningur varð af námskeiðinu sem ég mun taka með mér út í gegnum allt lífið. Sjálfstraustið efldist á þann hátt að ég hef miklu meiri trú á sjálfri mér og ég fékk öryggi sem skilar sér bæði inn í fjölskyldulífið og einnig fyrir mig sem sjálfstætt starfandi einstakling. Það að vita “hvers virði við erum” er erfitt fyrir flesta og ennþá erfiðara fyrir þá sem starfa sjálfstætt eða eru frumkvöðlar. Núna hef ég bloggað í um 8 ár á Svart á hvítu en aðeins síðustu 3 ár hef ég haft tekjur af blogginu sem ég tengi beint við Dale Carnegie þó ég hafi alls ekki haft þær væntingar til námskeiðsins.

Augljóslega er þetta mikil fjárfesting sem þú færð þó margfalt tilbaka í formi betri sjálfsmyndar, minni streitu, bættra samskipta ásamt í mörgum tilfellum hærri launum og hamingjusamara fjölskyldulífi.

Góðir vinir okkar Andrésar eru lifandi ímynd Dale Carnegie, annar þeirra er í dag þjálfari og hinn “dúxaði” sitt námskeið – það finnast ekki jákvæðari og glaðari einstaklingar á þessari plánetu og sambandið þeirra er okkar fyrirmynd. Núna er næst á dagskrá hjá okkur að senda Andrés á sitt námskeið haha… þá getum við líka verið svona Dale Carnegie “power couple” ef svo má kalla.

Ég hef verið dugleg að benda vinum mínum sem vilja bæta sig almennt í lífinu á að fara á þetta námskeið sem er lífsbætandi fyrir alla. Ég skrifaði um námskeiðið stuttu eftir útskrift sem sjá má í þessari færslu hér, en það er þó aldeilis kominn tími á aðra áminningu því ég er alltaf að sjá meira og meira með tímanum hversu mikið ég græddi. Ég mun pottþétt koma til með að sækja einhver dagsnámskeið sem í boði eru eins og t.d. Brot af því besta en námskeiðið sem ég er að tala um hér að ofan er 8 vikna Dale Carnegie þjálfun (1x í viku).

Ef þið eruð með spurningar þá er ykkur velkomið að senda mér skilaboð persónulega eða hér að neðan í athugasemdum og ég mun glöð aðstoða ykkur.

Ef þið viljið kynna ykkur þetta ennþá betur þá getið þið séð allt um námskeiðið á heimasíðunni þeirra. Ég segi það í fullri hreinskilni – þetta er það besta sem þú getur gert fyrir þig sjálfa/n.

Og fyrir ykkur sem eruð að velta fyrir ykkur hvaða verkefni ég er að vísa í sem ég þarf að takast á við, þá erum við fjölskyldan að flytja inn til foreldra minna í lok janúar til að safna pening fyrir íbúð. Við erum að tala um gamla herbergið mitt, par + barn + köttur. VÁ hversu spennandi segi ég nú bara – pant gera sem allra best úr því ♡ Núna sit ég því sveitt að undibúa flutning + bílskúrssölu sem verður næstu helgi.

VORIÐ '18 HJÁ H&M HOME

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

 1. Sigrún Víkings

  2. January 2018

  Gleðilegt ár elsku Svana! Flott hvatning inn í nýja árið <3 megi 2018 vera þér einstaklega gott!

  • Svart á Hvítu

   3. January 2018

   Og sömuleiðis til þín elsku Sigrún <3
   Heyrumst sem fyrst!!