Við Snædís fórum til Oslóar um daginn til að heimsækja bróður minn. Þessa tilteknu helgi var HM hópurinn tilkynntur en hann átti ennþá möguleika á að vera valinn. Mig langaði alls ekki að hann yrði einn daginn sem hann fengi fréttirnar, hvort sem svarið yrði nei eða já.
Samúel tókst ætlunarverk sitt og var valinn í hópinn. Að deila þessari minningu með honum þegar hann fékk skilaboðin er dýrmætt og rennur mér seint úr minni. Ég spurði hann örugglega fimmtán sinnum “Ertu ekki að grínast” og saman lásum við skilaboðin síendurtekið til að vera örugglega viss um að við værum ekki að misskilja. Þegar ég fór loksins að meðtaka þetta tók við tilfinningaflóð og við hoppuðum bókstaflega af gleði.
Að sjá hann ná markmiðum sínum aðeins 22 ára gömlum er magnþrungið. Samúel er öðruvísi en allir sem ég þekki, þess vegna er hann kominn svona langt. Þegar maður fórnar öllu fyrir einn hlut, þá hlýtur maður að ná markmiðum sínum. Yfirnáttúrulegur einbeittur vilji eru orð sem lýsa honum betur en önnur.
Einlægur og jarðbundinn eru sömuleiðis orð sem lýsa persónu hans vel. Mér fannst það sjást í viðtalinu í gær á RÚV. Æ, ég er svo stolt af honum og fyrirgef honum allt fótboltavesenið sem yfirtók heimilið og æskuárin. Maður fékk oftar en ekki bolta í andlitið eða í svefnherbergisrúðuna á unglingsárunum – þá lét ég hann sko heyra það fyrir vikið.
Skrifa Innlegg