Karen Lind

Kviknar..

Í dag kl. 17 er útgáfupartý Kviknar (Kaffi Laukalækur) sem ég skrifaði um hér um daginn.. en þessi bók er svo yndisleg eins og þið sjáið hér að neðan. Í henni eru allar spurningar sem þú spyrð sjálfa þig þegar þú ert ófrísk. Sumum langar að spyrja ákveðinna spurninga en þora því ekki, og þar af leiðandi er þessi bók alveg tilvalin. Það má segja að hún sé eins og handbók en þó auðlesin og í senn einföld sem gerir hana líka heillandi. Það á að vera gaman að lesa um allt ferlið, frá getnaði til sængurlegu.

Hér eru örfá dæmi um nokkra fræðslumola og spurningar sem mér finnst frábærar!

Hvað er belgjalosun?
Hvað er að vera hagstæð?
Hver eru einkennin þegar ég er að fara af stað?
Hvað er áhættumeðganga?
Hver er munurinn á samdráttum, fyrirvaraverkjum og hríðum?
Hvaða vítamín á ég að taka?
Af hverju fæ ég sinadrátt?
Af hverju morgunógleði?
Af hverju fæ ég æði fyrir ákveðnum mat?
Hvernig á ég að anda (í fæðingunni) til að slaka á?
Hvað er dreypi/dripp?
Get ég rifnað í klofinu? Þarf að klippa mig og sauma?
Hvernig fer keisari fram?
Kúka ég í fæðingunni?

Þessi bók er æðisleg.. og hún er algjör nauðsyn að mínu mati.


Trylltir lampar..

HÖNNUN

Ég sá svo fallegan lampa hjá Svönu í þessari færslu, sjá hér… og degi síðar sá ég hann auglýstan á Facebook hjá AFF concept store í Ármúla en hann fæst hér.

Mér finnst hann ótrúlega flottur, eiginlega meira en það. Mér finnst hann trylltur!

Persónulega finnst mér svarti flottari en hann passar eflaust ekki í öll rými en þá kemur hvíti sterkur til leiks. Lampinn er sniðinn inn til mín.. mig langar í hann helst í gær eða fyrradag.

 

Og svo eru það þessir sem eru frá Carl Johan líka, en mér finnst þeir ótrúlega flottir líka. Handblásið gler og marmari, ansi veglegur! Ég er ekki alveg jafn hugfangin af þessum og þeim efsta en engu að síður mjög flottur! Ég er ekki viss hvar hann fæst og viðurkenni fúslega að hafa ekki kannað það.

Svo er ég með þessa elsku á heilanum (þið verðið að afsaka lélegar myndir, eina sem er í boði), mushroom lamp frá Kosta Boda eftir Monicu Backström.. en það er ástæða fyrir því að mig dauðlangar í hann. Þetta er eitt af því fáa sem ég man að foreldrar mínir voru með á æskuheimili mínu, eða þar til ég var sex ára. Þá skildu þau.. ekkert nema gott og blessað við það. En þessi lampi prýddi heimilið. Hann er einstaklega fallegur og birtan svo mjúk og hlý. Þeir eru ekki auðfengnir, en ég hef gert dauðaleit af honum á bæði internetinu sem og í verslunum.. mig langar ótrúlega í einn, þá helst hvítan með fölbleiku mynstri sem er varla sjáanlegt (þannig var þeirra lampi). Ég held enn í vonina.

Jólatrésstandur? Aðeins einn kemur til greina

HÖNNUNÍSLENSK HÖNNUN

Já, aðeins einn jólatrésstandur að mínu mati kemur til greina. Ég ýki ekki en ég man ekki til þess að hafa séð flottan stand áður. Enginn standur hefur gripið athygli mína sérstaklega – en í fyrra gerðist það. Mæðgunum (eða vinkonum mínum, ég kýs að kalla þær það) í VIGT tókst að hanna hinn fullkomna jólatrésstand. Hann kom út í fyrra en þá var hann aðeins til í hör en í ár hafa þær aldeilis bætt við flóruna, en nú eru þeir einnig til í velúr. Ég veit hreinlega ekki hvaða litur er í uppáhaldi.. þeir eru allir ótrúlega sjarmerandi.

 

Ég þarf að fara heimsækja þær í VIGT og vera mögulega með Instastory á Trendnet, þá get ég sýnt ykkur þá “live”. Annars mæli ég alltaf með ferð til þeirra.. en verslunin er svo falleg. Þær mæðgur halda í concept VIGT bæði inni í versluninni (auðvitað) sem og fyrir utan hana.. en húsið er málað í fallegum dökkum lit og svo er allt umhverfið um kring ótrúlega hrátt.

Jólatrésstandurinn fæst hér.


Apríl Skór?

SKÓR

Undanfarna daga hafa ótrúlega falleg skópör verið að poppa upp á facebook hjá mér.. ég varð svo forvitin að ég sendi þeim nokkrar línur – og svarið sem ég fékk var ekki af verri endanum og stóðst allar mínar væntingar (af myndunum að dæma).

Skóverslunin Apríl er sem sagt að opna í næstu viku á Garðatorgi 4, Garðabæ.. og er ný viðbót við lífsstílsverslunina Maí sem við þekkjum flest. Apríl verður með vefverslun www.aprilskor.is og mun senda frítt á pósthús um land allt!

Verslunin verður með breitt úrval af hágæða skóm á konur og segjast þau hafa fengið ótrúleg viðbrögð við kynningunni á facebook en fólk virðist vera jafn spennt og ég. Gífurleg mengun fylgir tískuiðnaðinum (sem er m.a. ástæða þess að ég hef keypt mér minna af fötum síðastliðin ár en vandaðri fyrir vikið) en Apríl mun selja tvö merki sem leggja kapp á að vera eins sjálfbær og mögulegt er (t.d. litunaraðferðir án króms, endurnýta skinn og nota endurunna skókassa). Það má alls ekki ofnota orðið “ég elska” því þá missir það marks, en það á við í þessu tilviki.. ég elska þessa breytingu sem er að ryðja sér til rúms. Við erum að verða meðvitaðri og það er bara hægt að fagna því.

Jii.. ég slefa yfir nokkrum pörum þarna! Svo eru þessir bláu og svörtu með loðinu eitthvað annað!


Kviknar

FYLGIHLUTIR

Hér er komin jólabókin í ár að mínu mati, þá sérstaklega fyrir þann sem langar í barn, er með barni eða á barn fyrir. Það er svo mikið sem fylgir meðgöngunni, fæðingunni og dögunum þar á eftir. Upplifun kvenna af meðgöngu, fæðingu og sængurlegu er ótrúlega mismunandi. Sjálf upplifði ég mjög erfiða meðgöngu og eins fannst mér fyrstu þrjár vikurnar eftir fæðingu ótrúlega strembnar. Þá bæði hlutir sem snéru að mér sjálfri sem og nýja hlutverkinu. Vinkonur mínar voru búnar að “vara” mig við og minntu mig á að þetta tímabil yrði fljótlega búið. Ég hef verið opin með mína upplifun og það hjálpaði en svo vann tíminn með mér. Þið klórið ykkur eflaust í hausnum.. hvað ætli hafi gengið á. Það var ýmislegt en eitt af því sem tók virkilega á andlega og líkamlega var grindargliðnun sem gerði vart við sig á 24. viku. Klemmdar taugar í nára og fleira ollu því að ég var nánast rúmliggjandi síðustu tíu vikur meðgöngunnar. Ég náði mér ekki fyrr en Snædís var 10 mánaða gömul (þó ekki að fullu) en fyrir mér fékk ég loks staðfestingu á hve slæm ég var þegar ein af ljósmæðrunum sem önnuðust mig hringdi í mig nokkrum vikum eftir að ég átti. Hún sagði mér að ég hefði verið eitt versta tilfelli sem hún og þær höfðu séð lengi. Það að koma barni í þennan heim er ótrúlega fallegt og krefjandi verkefni og ég ber ómælda virðingu fyrir konum sem ganga með barn.

Bókin Kviknar eftir Andreu Eyland inniheldur fjóra aðalkafla: getnaður, meðganga, fæðing og sængurlega. Í bókinni má finna fræðilegar upplýsingar, reynslusögur og svör við algengum spurningum. Bókin er tæplega 200 blaðsíður að lengd og er eins og myndirnar að neðan sýna, einstaklega falleg harðbóka útgáfa sem er fullkomin í bókahilluna sem og stofuborðið. Myndirnar tók snillingurinn hún Aldís Pálsdóttir.

Svo er það Hafdís Rúnarsdóttir, ljósmóðir, sem hugsaði meðal annars um mig þegar ég fór á Akranes í spes treatment. Hafdísi gleymi ég aldrei, en hún er mesti töffari sem til er & stappaði svoleiðis stálinu í mig þegar ég var alveg við það að gefast upp. Hafdís er svo frábær að mig skortir orð um þessa konu – en bókin KVIKNAR fór ósjálfrátt á annað level einungis út af henni.

F.v. Aldís Pálsdóttir, ljósmyndari. Andrea Eyland Sóleyjar- og Björgvinsdóttir, hugmyndasmiður og höfundur og Hafdís Rúnarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

Ótrúlega falleg bók.. til hamingju með hana flottu konur!

Hægt er að kaupa bókina í forsölu & spara sér 2000kr (hér). Svo sá ég að þær eru með útgáfupartý þann 1. desember (sjá hér).


Ljósin heima

FRAMKVÆMDIRHEIMILIÐ MITT

Seint koma sumir en koma þó (þið kannski munið samt eftir þessari færslu)! Ég sýndi ykkur þessi ljós á snapchat á sínum tíma en þau eru frá kubbaljos.is (& er færslan unnin í samstarfi við þau). Þau eru ótrúlega flott en mér fannst ég verð að brjóta upp lýsinguna með einhverjum hætti. Við erum með halogen ljós með hvítum ramma í öllu húsinu, nema á þessum þremur stöðum. Okkur þótti nauðsynlegt að fá smá tengingu úr loftinu við handriðið & borðplötuna. Eins og ég sagði um daginn í þessari færslu, að þá finnst mér lýsing af lömpum fallegri en af loftljósum en það er ekki þar með sagt að loftljósin skipti ekki máli. Þau skipta öllu máli og því fannst mér nauðsynlegt að brjóta upp halogenið með þessum, upp á tenginguna við einstaka fasta hluti (eins handriðið). Við settum dimmer sem mér finnst algjör nauðsyn, allavega í ákveðnum rýmum. Ljósin eru úr málmi en þau eru sprautuð með svart mattri áferð. Þau eru mjög vönduð eins og sést á fyrstu myndinni.

Ég tók nánast alla lausamuni úr eldhúsinu fyrir myndirnar.. það er vanalega ekki svona tómlegt :)

Við settum upp sex kubbaljós, þá í eldhúsið, svefnherbergisálmuna og í forstofuna. Við vildum til dæmis að svefnherbergisgangurinn væri með temmilega lýsingu svo við ákváðum að hafa tvö ljós en ekki þrjú (svo er líka stór og nánast gólfsíður gluggi við enda gangsins sem gefur mikla birtu). Við erum mjög sátt með útkomuna.. þessir litlu detailar skipta miklu máli :) Fyrir áhugasama þá má nálgast facebooksíðu Kubbaljos.is hér.

Nýtt: Motta í stofuna

HEIMILIÐ MITT

Ég svíf um á hamingjuskýi en þau hjá Ásbirni Ólafssyni buðu mér að koma í heimsókn á lagersöluna í Holtagörðum (opið frá 12-18) sem stendur nú yfir en henni lýkur 19. nóvember – sem er eftir þrjá daga. Ég mátti velja mér mottu en mér fannst hálf merkilegt að fá þetta boð því ég hef verið að leita af mottu í stofuna í nokkra mánuði. Ég þáði boðið og rauk af stað og fann fullkomna mottu fyrir stofurýmið (ég sýndi hana á snapchat í gær og fékk ótrúlega jákvæð viðbrögð). Mottan er akkurat það sem ég sá fyrir mér.

Mottan er frá The Rug Republic og er sko ótrúlega vegleg. Hún á að kosta margfalt meira & það sést.. hér erum við að tala um gæða mottu! Eins og þið sjáið vildi ég stóra mottu sem næði undir helming sófans sem og helming stöku sófanna. Þetta kemur svo æðislega út að ég er alsæl og mjög montin með þetta nýja lúkk á stofunni! Mér finnst hún hafa innrammast enn frekar..

Mottan mín heitir Medanos Charcoal og er 290*190cm. Það eru til fleiri litir ásamt ýmis konar öðrum mottum.. margar mjög flottar! Ég mæli með að hafa hraðar hendur og kíkja, það er ekki oft sem svona gersemar bjóðast á svona góðu verði :)

Takk kærlega fyrir mig… mér finnst “nýja” stofan mín algjört æði.


Nýtt í fylgihlutaskápnum

FYLGIHLUTIR

Nýtt í fataskápnum: þetta belti frá 66°norður. Ég keypti það um daginn og það kostaði eitthvað um 3 þúsund krónur. Ótrúlega ánægð með það! Eins gott að passa vel upp á það þar sem það er hvítt… fyrir tíu árum síðan hefði ég svarað þeirri spurningu neitandi um hvort ég myndi klæðast 66° norður belti. Í dag er málið allt annað.. þetta belti er æði!


.. loksins!

FÖT

Ég er alveg sannfærð um að nýjasta viðbótin frá 66° norður muni slá í gegn. Úlpan ber nafnið Tindur, en hún mætir í verslanir 66° á Laugaveginum í dag, þann 11. nóvember. Ég hef beðið eftir þessari úlpu frá því ég sá Svölu Björgvins í henni í Paper myndbandinu.

Tindur er léttasta og tæknilegasta dúnúlpa 66° hingað til, og er hún sérstaklega hönnuð fyrir erfiðar veðuraðstæður. Öll dúnhólf úlpunnar eru aðskilin en það er svo dúnninn dreifist jafnt og þétt. Með þessu verður einangrunin enn betri og því engin undankomuleið fyrir hitann! Hljómar of djúsí fyrir mig.

What a MASTERPIECE!

Hvernig væri að 66° færi í smá pásu.. við… eða kannski bara ég.. verðum gjaldþrota út af þessum endalaust fallegu flíkum. Þeir koma með hvern “hittarann” á fætur öðrum.

Ein ferð í 101 á morgun á mig.. ég verð að skoða hana og máta!


.. betra verður það ekki

BARNAVÖRUR

Ég er alveg dolfallin yfir JOHA útifötunum fyrir barnið. Ég hélt nýverið “babyshower” fyrir vinkonu mína og við gáfum henni m.a. lambhúshettu frá JOHA. Útifötin eru svo dásamlega þétt og hlý, mjúk og svo eru þau ótrúlega flott. Ég get lofað ykkur að þau sem eiga von á barni myndu ekki slá höndinni á móti einhverju úr þessari línu.. þetta er alveg skotheld gjöf! Það væri óskandi að ég gæti sett sýnishorn í viðhengi, svo þið gætuð fundið hve frábært þetta er… (kannski í framtíðinni).

JOHA fötin fást í Baldursbrá fyrir áhugasama.