Karen Lind

.. ein heima

HEIMILIÐ MITTPERSÓNULEGT

Að vera ein heima hefur öðlast nýja merkingu. Ég kveiki hvorki á sjónvarpinu né hækka í uppáhaldslaginu í útvarpinu. Ég slekk á öllu og fer í bað. Skilaboðin frá öðrum foreldrum hljóðuðu gjarnan svona “Oh Karen, njóttu þess að vera frjáls og geta gert það sem þú vilt”. Ég svaraði þessu auðvitað játandi og var sannfærð um að ég vissi hvað fólk átti við. Hins vegar hafði ég rangt fyrir mér. Núna veit ég meininguna á bakvið þessar vinalegu ábendingar. Þess vegna er ég að elska að vera ein heima á laugardegi í dauðaþögn. Ég gæti verið í þessum stól eins lengi og hægt er. Það hljómar alveg spennandi. Jafnvel halla ég mér bara á borðið og hangi hér fram að kveldi.

Annars hafa orðið miklar breytingar í mínu lífi undanfarin mánuð. Ég segi ykkur frá því ansi fljótlega!


Hitt og þetta úr Target

BANDARÍKINKATIE MÆLIR MEÐ

Ég lofaði nokkrum á snapchat að setja inn hluti sem ég verslaði í Target um daginn. Þetta er lagerinn sem mér finnst nauðsynlegt að eiga (ásamt öðru, en þetta keypti ég núna).

Ég keypti Swiffer moppu og ég elska hana! Ég keypti bæði þurr- og blautþurrkur með henni. Þetta er alveg í uppáhaldi þessa stundina. Ég er svo sem ekki að þurrmoppa allt húsið, en ég tek meðfram veggjum því þar safnast rykið vanalega. Ég ryksuga frekar oft, kannski fjórum sinnum í viku. Þrátt fyrir það kemur ótrúlega mikið í Swiffer moppuna – kemur á óvart (“.). Swiffer er að henta mér mjög vel þessa stundina þar sem ég hef ekki jafn mikinn tíma og áður til að þrífa.. fljótleg og áhrifarík þrif!

Annars ætla ég að skrifa nokkur orð undir hverja mynd.

Mögulega segir tannlæknirinn að þetta séu ekki bestu kaupin.. en ég fæ svakalega klígjur yfir hvítu tannkremi og hef vanið mig á að kaupa Crest. Ég á yfirleitt ágætis lager af tannkremi og tannburstum (sem ég kaupi hjá tannlækninum mínum) en mér finnst ekkert meira óþolandi en að eiga ekki tannkrem allt í einu.

Þessum er ég háð. Það fer með mig að finna fyrir einhverju milli tannanna. Þessir ásamt Soft picks frá Gum er dúndurblanda.

Gain lyktin frá Febreze er í miklu uppáhaldi. Mér finnst hún mun betri en aðrar lyktir frá Febreze. Island Fresh er ágæt en hin ber sigur úr býtum.

Gott preworkout. Kostar lítið í Target eða 21$.

Ibúprófen í vökvaformi með berjabragði. Hentar mjög vel fyrir Snædísi því hún vill ekki þetta sem ég keypti hér heima.

Þetta elska ég (sérstaklega grape bragðið). Það er örlítið koffín í hverju bréfi en ég finn ekki fyrir því. Algjört æði og mæli alveg sérstaklega með þessu til að hressa upp á vatnið af og til :)

Uppþvottalögur frá Gain. Ahh, ég elska þetta! Þessi lykt er algjör bomba, létt og góð.. ég vildi óska þess að þetta væri til á Íslandi (var til í Kosti hér áður fyrr).

Rosy lips frá Vaseline. Gefur vörunum fallega og náttúrulega ljósbleika áferð. Ég er lítið fyrir að vera með varaliti og nota þetta því daglega fyrir smá “tint”. Fæ oft spurningar um hvað ég sé með á vörunum, þá er það þetta.

Þetta er algjör nauðsyn. Sérstaklega fyrir ryksuguna. Ég set nokkrar kúlur í ryksugupokann og það gjörbreytir öllu. Það er ansi góð leið til að koma góðri lykt inn á heimilið. Þessar tvær lyktir eru æðislegar og í uppáhaldi (ásamt venjulegri Gain).

Life changer! Swifferinn keypti ég í Target. En takið eftir lyktinni á blautþurrkunni… Gain! Jiii… ég hoppaði hæð mína þegar ég sá þetta. Ekkert lýsingarorð nær að lýsa gleðinni, en þetta er dásamleg lykt. Hins vegar dugar blautþurrkann ekki svo lengi. Ef ég ætlaði að moppa allt húsið þá myndi ég þurfa nokkrar blautþurrkur. Nema einhver annar sé með ráð?

Alltaf fínt að eiga nokkra svitalyktaeyði á lager. Hér eru nokkrar lyktir sem mér finnst mjög góðar. Ég hef verið að nota Clean Lavender og hún er frábær. Ég skil ekki af hverju hún heitir Lavender því ég finn ekki þá lykt af honum.

Og að lokum þetta brúnkusprey! Það hentar mér mjög vel, þornar fljótt og gefur jafna áferð. Ég þarf ekki að nudda því á mig.. rétt spreyja yfir andlitið og það dugar. Allt sem er einfalt er í uppáhaldi.


Rólegheit yfir páskana

PERSÓNULEGT

Þessir páskar hafa einkennst af rólegheitum. Við höfum svo sem verið í fullu fjöri en við fórum ekki langt. Ég tók smá syrpu í garðinum en mér þykir fátt skemmtilegra en að snyrta og laga til í honum… (stórfurðulegt áhugamál). Ég get alveg gengið fram úr sjálfri mér.. en ég gerði það einmitt núna. Ég lyfti öllum hellunum upp til að ná öllu grasinu upp með rótum.. en þær stærstu eru eitthvað óeðlilega þungar. Eflaust um 30-40 kíló.. Svo ég var bókstaflega búin eftir þetta. Nú þarf ég bara að háþrýstiþvo þær.. en það er án alls gríns, í algjöru uppáhaldi þegar kemur að garðvinnu :)

Þetta veitir mér sko hamingju.. (“.).

Gleðilega páska!


Heima: Nýtt

HEIMILIÐ MITT

Svei mér þá, ég er fastagestur í Góða hirðinum. Þangað fer ég kannski einu sinni í mánuði. Mér finnst það skemmtileg upplifun en yfirleitt rekst ég á sömu andlitin í mannþrönginni. Það er aldrei dauð stund í þessari nytjabúð en það myndast yfirleitt löng biðröð fyrir utan verslunina um það leyti sem hún opnar.

Ég keypti styttuna þaðan í síðustu viku. Hún er nokkuð stór og þung og merkt Víetnam. Ég er hrikalega ánægð með hana. Hún tónar skemmtilega við sandinn í tímaglasinu sem ég keypti einnig nýlega.

Marmarabakkinn er frá Twins.is (ég sný honum öfugt).
Louis Poulsen bókina fékk ég í gjafapoka frá Epal.
Plaggatið er eftirprentun af verki eftir Valtý Pétursson en það fékk ég í Safnbúð Listasafns Íslands.


Lífið ♡

PERSÓNULEGT

Jæja..

Það líður of langt á milli pósta hjá mér. Það er ástæða fyrir því. Hins vegar er álagið aðeins að minnka en í næstu viku klára ég þetta tímabundna verkefni sem ég tók að mér. Sum ykkar eru kannski forvitin um þetta verkefni, en ég tók að mér kennslu í Miðstöð símenntunar. Ég kenndi þrjú fög sem reyndist mér mjög lærdómsríkt. Það fór ótrúlega mikill tími í undirbúning þar sem ég sá um allt kennsluefni sem og uppsetningu. En þetta heppnaðist og fór alveg eins og ég vildi.

Það eru tækifæri á borð við þetta sem ég talaði um í síðasta pósti (eða hvort það var einhver annar, ég man það ekki). Mér hefur boðist ýmislegt spennandi – þó misjafnlega krefjandi.. en hræðslan við að mistakast og gera hlutina ekki hundrað prósent hefur stýrt mér þá leið að það var auðveldara að segja nei og koma með afsökun.

Ég ætlaði aldrei að fara að skrifa um svona hluti á Trendnet. Ég get þó sagt ykkur aðeins frá þessu án þess að fara djúpt í það. En ég fór til markþjálfa í fyrra. Við ræddum heilmikið saman og hann var alveg frábær. Þegar leið á tímann bað hann mig um að skrifa upp á töflu þá hluti sem ég hef sleppt að gera vegna þessarar hræðslu um að mistakast. Listinn var langur. Það reyndist mér erfitt, að sjá þetta svona svart á hvítu.

Það er ótrúlega gott að fá svona skell, þó hann sé erfiður á þeim tímapunkti. Öðruvísi hefði ég ekki ætlað mér að breyta þessu.

Kærar kveðjur ♡

Hreyfing

ÆFING DAGSINSHEILSA

Loksins kom að því að ég kæmist í ágætis líkamlegt form. Ég get lýst líkamsformi mínu eins og tröppugangi, en ég staðna yfirleitt í ákveðinn tíma og þá skyndilega kemur árangur. Með líkamlegu formi á ég aðallega við styrk. Ég er búin að vera í einhverju ströggli með lungun í of langan tíma – en það veldur því að ég næ ekki þeim árangri sem mig langar að ná. Síðastliðið sumar var ég komin vel á veg en hrundi bókstaflega á núllpunkt í ágústmánuði og er fyrst núna að ná mér, hálfu ári síðar.

Ég hef alltaf verið íþróttaálfur í mér, en frá því ég byrjaði að æfa sund kom það snemma í ljós að ég þurfti lítið að hafa fyrir því að ná árangri. Það var vissulega ekki gott – því hausinn var aldrei rétt skrúfaður á.. þetta kom bara til mín og því nýtti ég getu mína aldrei til fulls.

Mín sterka hlið frá blautu barnsbeini hefur klárlega verið sprengikraftur og styrkur. Þegar ég er komin í ágætis form finnst mér ég stundum geta lyft hverju sem er.. ég skil oft ekki hvernig mér tekst það. En fyrir tveimur vikum eða svo ákvað ég að fara í smá keppni við sjálfa mig. Markmiðið er einfalt.. að verða sterkari… og svo skal ég fúslega viðurkenna að mig langar að létta mig örlítið. Kannski fimm kíló, ég er ekki viss. En það er líka ágætis pæling á bak við það – þá verða æfingar eins og upphífingar, dýfur, kassahopp og burpees auðveldari.

Mér finnst ekkert betra en að vera í góðu formi. Eins og ég hef sagt ykkur, þá varð ég gjörsamlega heilsulaus á meðgöngunni. Það fór ótrúlega illa með andlegu hliðina en mér leið eins og ég væri sjúklingur. Þess vegna langar mig að nýta tímann á meðan ég er heilsuhraust og gera mitt besta.

Eigið góða helgi ♡


Svefnherbergið..

FRAMKVÆMDIRHEIMILIÐ MITT

Við eigum enn eftir að klára ýmislegt heima. Til dæmis er svefnherbergið okkar agalegt.. það vantar alveg allt við það sem kallast huggulegt. Við erum að fara í smá “mission” með það en við ætlum að:

-Halogen lýsingu (erum með rússa þrátt fyrir að hafa flutt inn fyrir rúmu ári síðan).
-Pússa upp skápahurðirnar og láta bæsa þær
-Setja eitt veggljós (ekki tvö eins og er svo algengt..)
-Rúm (rúmteppi, púðar og fl.)
-Veggir (myndir eða e-ð annað)?
-Taka myrkvagluggatjöldin og setja voal í staðinn, ásamt myrkvagardínum (sýnishorn að neðan en við ætlum að taka litinn Pewter).

Við verðum sem sagt með tvær z-brautir í loftinu. Voal efnið verður nær glugganum en myrkvagardínurnar fjær. Vinkona mín er með svona & ég er algjörlega að stela hugmyndinni þaðan.. en þetta gjörbreytir útliti svefnherbergisins. Nokkurs konar hótelfílingur kemur yfir herbergið – ótrúlega fallegt.

Svo ætlum við að setja voal í gluggann á svefnherbergisganginum. Ég er að fara panta þetta í dag.. hlakka til að sýna ykkur útkomuna!


Kertahrúga: Einfalt tip

Ég setti þessa mynd inn á snapchat hjá mér (@karenlind) og fékk nokkur komment á það hve fallegt það væri að hafa stærri kerti á Iittala kertastjökunum. Ég er mjög sammála því, en mér þykir það eiginlega fallegra. Mig langaði einfaldlega að deila einföldu hugmyndinni hér með ykkur.. ef ykkur hefur ekki dottið þetta í hug nú þegar. Ég var að taka þessa tvo stjaka úr “hvíld”, en ég var orðin frekar þreytt á þeim en þeir hafa fengið nýtt líf með stærri týpunni af kertum.

Annars er ég með kerti frá Geysi (Krambúðarilman) og lyktin af því er svo ótrúlega góð.. aftur á móti kveiki ég ekki mikið á litla kertinu frá VOLUSPA (ég er með vitlaust lok á því og veit því ekki nafnið á því).. en mér finnst þessi lykt ekkert sérstök. Annars finnst mér þessi altarisfílingur æðislegur, ein kertahrúga að kvöldi til getur einhvern veginn bætt svo margt.

Annars er ótrúlega margt í gangi hjá mér þessa dagana.. margt nýtt. Ég tók ákvörðun eins og ég sagði ykkur í síðasta pósti, um að vera óttalaus og hluti af því snýr að því að segja já við hinum ýmsu tækifærum sem mér býðst. Ég hef verið heppin í gegnum tíðina, tækifærin hafa hreinlega komið til mín.. en ég hef ekki verið dugleg að taka við þeim. Einhver er ástæðan fyrir því.. en núna er ég að breyta þessu. Hvað gerist þá? Ég fékk hringingu um daginn um ótrúlega skemmtilegt og krefjandi verkefni sem fær mig alveg til að fá hnút í magann.. en engu að síður frábær viðbót á ferilskrána. Ég sagði já, til tilbreytingar. Svo sagði ég líka já við herferð UN Women, en ég tók þátt í henni ásamt fleirum hér á Trendnet.is. Ég ætlaði að hætta við… en út fyrir þægindarammann eru orðin mín þessa stundina. Ég hlakka til að sjá hvert “já-in” leiða mig.


Óttalaus

PERSÓNULEGT

Gleðilegt ár kæru lesendur. Ég kveð gamla árið og tek á móti því nýja með bros á vör.. nýja árið byrjar vel en ég hef ákveðið að setja mér áramótaheit, ólíkt fyrri árum. Mín áramótaheit eru á persónulegu nótunum en mér finnst eðlilegra að kalla þetta markmið, þar sem þetta tengist áramótunum ekki með neinum hætti :) Mig langar ótrúlega að opna mig og skrifa allt sem ég er að hugsa, því ég er einlæg að eðlisfari en að sama skapi finnst mér netið vera “scary” vettvangur til þess. Því ætla ég að stikla á stóru, en þið tengið eflaust einhver við orð mín að einhverju leyti og skiljið hvað ég er að fara.

Ég ætla að vinna í sjálfri mér og vinna í því að vera óttalaus. Fara þangað sem ég vil, fylgja draumum mínum.. losa mig enn frekar við áhrif umhverfisins. Taka ákvarðanir, fylgja þeim, framkvæma. Ég hef látið eitt lítið tól stjórna mér að hluta um nokkurt skeið en núna, eða einhverjum vikum fyrir jól, tók ég loks stóra ákvörðun og það er að vinna í þessari hindrun minni. Fjarlægja hana. Það er orðið svo raunverulegt fyrir mér hve lífið er stutt, ég er ekki ódauðleg eins og ég hélt fyrir áratug eða svo.. lífið er núna, eins klisjulegt og það hljómar. Þetta er alls ekki alvarlegt, ég vil ekki að þið haldið að mér líði illa. Þetta snýst meira um að mér finnst löngu kominn tími til að ég fari að blómstra á ákveðnum sviðum :) 

Nýja síðan er æði! Ég komst ekki á viðburðinn í kvöld og er miður mín. Snædís er í tanntöku og vakti út í eitt í nótt.. og ég mætti bókstaflega svefnlaus til vinnu. Orkan var búin að loknum vinnudegi, tveggja tíma tættur svefn gerir víst lítið fyrir mann… og ég valdi að vera heima að þessu sinni (en ég sé eftir því núna, týpískt ég).

Annars eignaðist ég nýjan síma um daginn. Ég var búin að vera lengi með iPhone SE.. myndavélin var algjör martröð. Núna er ég með iPhone 8+ og myndavélin er frábær. Það er nauðsynlegt að vera með góða myndavél út af Snædísi.. en svo er ég alltaf að reyna að hysja upp um mig brækurnar á instagram en mér tekst það með eindæmum illa. Ég á í pínu “love hate” sambandi við instagram (“.) en hver veit hvað gerist á árinu!

Ég fór upp í bústað milli jóla og nýárs með vinkonum mínum. Veðrið í Skorradalnum var magnað.. ótrúlega kalt og stillt. Myndin er tekin við vatnið.. :)

Takk fyrir lesturinn í gegnum árin.. þau eru orðin ansi mörg!


Draumur í stofu

Færslan er unnin í samstarfi við Lumex

Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég eignaðist drauma stofulampann minn en ég keypti hann í Lumex. Ég er enn að ná mér niður – en ég vakna nánast brosandi alla morgna bara út af lampanum. Á morgun eða réttara sagt á Þorláksmessu, 23. desember,  verður hann á tilboði en þá mun hann kosta 269.000kr í stað 299.000kr.

Arco gólflampinn (1962) er dæmi um hina frábæra hönnun þar sem útlit og virkni parast fullkomlega saman. Gólflampinn er svo praktískur og einfaldur en að baki hönnunarinnar liggja flóknar pælingar byggðar á funksjónalisma meðal annars. Hönnunin er ótrúlega rökrétt, en þarna erum við með hangandi stofuljós án snúra sem má færa hvert sem er. Marmarafóturinn þjónar tvennum tilgangi, hann er hluti af útlitinu og svo heldur hann jafnvægi á lampanum. Holan í marmaranum var hugsuð sem handfang, en ef til þess kæmi að fólk þyrfti að færa lampann var mælt með því að fólk setti kústskaft þar í gegn til að auðvelda sér verkið. Frekar furðulegur þessi síðasti punktur.. en allt í lagi :)

Sjáiði hvað hann er fallegur.. ég á ekki til eitt einasta orð. Það þarf ekkert að flækja þetta, heimilið mitt hefur aldrei verið fallegra. Takk fyrir mig Lumex!