Sum ykkar munið mögulega eftir færslunum mínum í lok árs 2017, byrjun árs 2018. Ég var staðráðin í því að verða óttalaus, hætta að ýta á bremsurnar og vaða í þau verkefni sem mér byðust. Ég var búin að vera í sama starfinu í of langan tíma. Starfi sem mig langaði lengi að segja lausu. Starfið gerði ekki mikið fyrir mig, ég þarf áskoranir, ég þarf að ná markmiðum og ég þarf að hafa rödd. Mig langar að læra nýja hluti, vaxa og þróast í starfi (tek fram að ég tala fyrir mína hönd – auðvitað hentar starfið öðrum).
Árið 2018 hefur verið mér mjög lærdómsríkt. Ég fékk nýja vinnu, draumastarfið, sem útskýrir mikla fjarveru hér (sem og annars staðar). Líf mitt hefur verið ansi mikil púsluspil síðastliðna mánuði og hafa hlutir eins og ræktin mætt algjörum afgangi…. algjörum!
Ég eyði tveimur tímum á dag í að keyra í vinnu.. og með tveggja ára barn og heimili er það frekar tímafrekt. Mig hefur sárlega vantað auka tvo tíma í sólarhringinn. Stundum vaki ég til kl. 1 á nóttunni (og vakna 6) bara til að ná að klára ýmsa hluti fyrir næsta dag. Smá svona “roller coaster ride” en svo sannarlega þess virði.
Með nýju ári ætla ég að reyna að skipuleggja hlutina aðeins öðruvísi. Ég þarf að finna út úr því hvernig ég næ að púsla þessu öllu betur saman & koma fleira fyrir í dagskrána. Klárlega væri það auðveldara ef ég byggi á höfuðborgarsvæðinu. Einn af mínum helstu veikleikum er að vaka fram eftir… ég þarf kannski að byrja þar, fara fyrr að sofa.
Gleðilegt ár & takk fyrir þau gömlu.
Skrifa Innlegg