The High Line eru gamlir járnbrautateinar í rúmlega 10 metra hæð sem teygja anga sína frá 34. stræti að Gaansevort stræti og er gönguleiðin um 1.6 km að lengd. Járnbrautateinarnir voru í fullri notkun frá árunum 1934-1980 og þá meðal annars notaðir til að ferja kjöt niður að Meatpacking District. Árið 2003 var efnt til hugmyndakeppni um hvernig ætti að endurhanna járnbrautateinana. Rúmlega 700 lið tóku þátt frá 36 löndum og þær hugmyndir sem ekki fengu að njóta sín prýða svæði á Grand Central. Í mars 2004 var sigurliðið valið og árið 2008 var byrjað á framkvæmdum. Sú hugmynd sem varð fyrir valinu var gönguleið sem er ótrúlega einstök og virkilega falleg. Framkvæmdum á þriðja og síðasta hluta gönguleiðarinnar lauk í lok september 2014.
Ég rölti The High Line síðastliðið haust og var alveg dolfallin en rétt er að minnast á að þriðji og síðasti hlutinn var ókláraður svo ég hef ekki enn skoðað hann. Ég rétt dúllaðist áfram þennan dag og tók mér dágóðan tíma í göngutúrinn, enda margt að sjá.
Gengið upp á High Line á 30. stræti.
Ég mæli með því að labba High Line á góðum sólardegi og þá helst í góðum skóm. Þá er nauðsynlegt að taka með sér sólarvörn og gott nesti. Það var lítið um samlokur og slíkt á leiðinni en nægt úrval var af drykkjum og ís. Ég myndi segja að gönguleiðin tæki sirka tvo til þrjá tíma fyrir nýgræðinga, jafnvel lengur. Á þriðja tímanum var ég orðin hungruð og fór því aftur upp á hótel. En mikið hefði ég viljað vera lengur, leggjast á einn bekkinn og lesa bók og fá mér samloku. Ég man það næst.
Þið sem þekkið ekki High Line skrifið þetta niður og setjið þetta efst á To Do listann ykkar fyrir NYC ferðina. Alveg frábært!
Skrifa Innlegg