Jæja..
Það líður of langt á milli pósta hjá mér. Það er ástæða fyrir því. Hins vegar er álagið aðeins að minnka en í næstu viku klára ég þetta tímabundna verkefni sem ég tók að mér. Sum ykkar eru kannski forvitin um þetta verkefni, en ég tók að mér kennslu í Miðstöð símenntunar. Ég kenndi þrjú fög sem reyndist mér mjög lærdómsríkt. Það fór ótrúlega mikill tími í undirbúning þar sem ég sá um allt kennsluefni sem og uppsetningu. En þetta heppnaðist og fór alveg eins og ég vildi.
Það eru tækifæri á borð við þetta sem ég talaði um í síðasta pósti (eða hvort það var einhver annar, ég man það ekki). Mér hefur boðist ýmislegt spennandi – þó misjafnlega krefjandi.. en hræðslan við að mistakast og gera hlutina ekki hundrað prósent hefur stýrt mér þá leið að það var auðveldara að segja nei og koma með afsökun.
Ég ætlaði aldrei að fara að skrifa um svona hluti á Trendnet. Ég get þó sagt ykkur aðeins frá þessu án þess að fara djúpt í það. En ég fór til markþjálfa í fyrra. Við ræddum heilmikið saman og hann var alveg frábær. Þegar leið á tímann bað hann mig um að skrifa upp á töflu þá hluti sem ég hef sleppt að gera vegna þessarar hræðslu um að mistakast. Listinn var langur. Það reyndist mér erfitt, að sjá þetta svona svart á hvítu.
Það er ótrúlega gott að fá svona skell, þó hann sé erfiður á þeim tímapunkti. Öðruvísi hefði ég ekki ætlað mér að breyta þessu.
Kærar kveðjur ♡
Skrifa Innlegg