Ég er ekki mikið fyrir smáhluti inn á heimilið mitt. Stórir og plássfrekir hlutir, sem þurfa lítið annað en sjálfan sig eru í uppáhaldi hjá mér. Það er ekki þar með sagt að ég ætli ekki að hafa neina smáhluti á nýja heimilinu, en þeir verða allavega í minna mæli en áður. Ég er dugleg við að skipta hlutum út og setja þá í pásu. Það auðveldar líka bara svo margt, eins og þrif og frágang.
Skúlptúr af kvenlíkamanum eftir Guðrúnu Halldórsdóttur myndlistarkonu. Mikið er þetta afskaplega fallegt. Ég geri mér engan veginn grein fyrir verðlagningu en þetta hlýtur að kosta sitt.
Facebook Guðrúnar Halldórsdóttur
Málverk eftir Hörpu Einarsdóttur (ZISKA ART). Þvílíkur listamaður sem sú kona er. Ég fíla stílinn hennar sérstaklega… drungalegur og þungur, og veitir manni mikið svigrúm til að túlka að vild. Mér finnst mjög gaman að list sem hægt er að túlka á mismunandi vegu. Ég væri til í eitt stórt olíumálverk eftir hana.
Shell chair eftir Hans Wegner. Ég væri til í einn til að loka stofunni. Í fyrsta sinn verðum við með stofu og mér finnst það dásamlegt. Ég sá alltaf fyrir mér að vera ekki með sófasett í sama stíl, kannski sófa og tvo öðruvísi stóla á móti. En sófasettið var bara svo fallegt og þægilegt að við ákváðum að kaupa það, en það fer vel að hafa einn öðruvísi stól á móti herlegheitunum. Þessi rándýra mubla yrði keypt ef ég ynni í lottó um helgina.
Postulín vasarnir eftir Jonathan Adler eru meistaraverk. Maður hefur nú rekist á vasana eftir hann á instagram en ég hafði aldrei litið þá berum augum fyrr en í vor. Ég var á rölti um götur Washington og sá þá verslunina. Ég fór að sjálfsögðu inn og sá þá að vasarnir eru enn fallegri en þeir virðast á mynd. Ég var ekki að fara kaupa einhvern rándýran vasa, langt í frá.. en ég gat ekki sleppt því þegar hann var þarna fyrir framan mig. Ég keypti Dora Maar vasann, minni týpuna. Mig langaði alltaf í stærri vasann en hann var ekki alveg tilvalinn þessa stundina, bæði vegna þess að ég var ólétt og meikaði ekki að halda á þessari hlussu.. og svo fannst mér tilhugsunin ómöguleg að bera þetta í handfarangri. Ég eignast kannski hinn þegar ég gifti mig. Annars væri ég mest til í Luciana Vase (rass og bak á kvenmannslíkama) ef hann væri til stærri.
… og af því ég er byrjuð þá finnst mér mjög smart að vera með tvo litla kertastjaka frá honum í Dora Maar stílnum (fást hér). Ég myndi nota þá undir salt og pipar og geyma þá við hliðina á helluborðinu.
HOPE by Luceplan ljósin hef ég skrifað oft um áður. Upphaflega langaði mig alltaf í hangandi stofuljósið en ég fékk ráð um að það ljós þarf mikla lofthæð, stóra glugga og stórt rými. Því keypti ég veggljósið og tók minni týpuna því stærri týpan er að mínu mati alltof stór og útstandandi. Ég fékk ótal fyrirspurnir á snapchat (@karenlind) um daginn um ljósið – það grípur mann einhvern veginn um leið.. enda birtan frá því eitthvað ólýsanleg (tilvalið lýsingarorð). Það var hins vegar mjög bjart svo við keyptum dimmer.
Ég keypti ljósið af ambientedirect.com :)
Skrifa Innlegg