Ég fékk hlaupaskó frá Adidas í vor. Ég var ákveðin í að fá mér aðra týpu, en þegar ég mátaði Energy Boost gat ég ómögulega tekið hina. Þetta er eins og að stíga á dúnmjúka dýnu. Af því að þeir eru svo mjúkir fer þunginn af mjóbakinu sem ég er svo oft með. Ég fékk skóna með því skilyrði að ég gæfi hreinskilið álit á skónum. Ef mér líkaði þá ekki, þá þyrfti ég ekki að fjalla um þá. Þannig á það auðvitað að vera, ég fer ekki að hvetja fólk til að kaupa hluti án þess að mér líki vel við þá. Til þess að gefa ykkur álit á skónum þurfti ég að nota þá í einhvern tíma og sjá hvernig þeir reyndust mér. Ég komst að því að þeir eru virkilega góðir og ég get mælt með þeim. Ég er sjálf með ýmis konar vandamál í fótum og baki og get alls ekki hlaupið í hvaða skóm sem er. Það borgar sig líka að velja skóna vel og vandlega því annars endist hlaupaáhuginn stutt. Til að byrja með voru þeir eilítið óþægilegir öðru megin, en þeir voru eitthvað aðeins þröngir aftan við hásinina. Það lagaðist þó eftir viku þegar ég hafði hlaupið þá til og þeir þá búnir að aðlagast fótunum.
Um Energy Boost hlaupaskóna:
Sólinn í flestum hlaupaskóm er búinn til úr efni sem nefnist EVA ásamt einhverri dempun. EVA er að mörgu leyti talin góð en þegar EVA er orðin of mjúk drekkur hún í sig orku og þær stífu eru oft of harðar og ekki þægilegar. Boost sólinn hins vegar sameinar mýkt, og mýktin er það mikil að það þarf enga aðra dempun. Boost sólinn virkar líka smá eins og trampólín í hverju skrefi. Ég fann það um leið og ég steig nokkur skref í Adidas búðinni (sem reyndar lokaði í ágúst). Boost hlaupaskórnir eru taldir viðhalda eiginleikum sínum svo lengi sem skórnir endast, ólíkt því sem gerist oft með hlaupaskó. Þeir eiga til að þjappast saman og missa eiginleika sína eftir einhvern tíma eða u.þ.b. 1000 kílómetra. Eins helst mýktin í Boost sólanum í öllu veðri. Í Energy Boost hlaupaskónum sem ég fékk er efri hlutinn úr teygjanlegu Tech-Fit efni sem aðlagast að fætinum, eiginlega eins og sokkur, og það gefur aukin þægindi. Þá er Boost sólinn úr 80% Boost efni.
Skórnir eru mjög þægilegir og það fer ekkert framhjá manni um leið og maður fer í þá. Nú er hins vegar komin ný týpa sem ég elska.. liturinn á þeim er svo skemmtilegur og þeir eru líka orðnir aðeins nettari en mín týpa.
Ef ykkur langar að fara hlaupa… eða langar að breyta til og prófa nýja og góða hlaupaskó, þá mæli ég allavega með því að þið mátið þessa skó og finnið muninn. Það er lygilega gott að stíga í þá. Þeir fá toppeinkunn frá mér og þið getið treyst því að þetta er hreinskilið álit frá mér.
Kærar kveðjur..
Skrifa Innlegg