fbpx

SÍÐUSTU VIKUR

LÍFIÐ

Halló! Mér líður eins og það sé heil eilífð síðan ég skrifaði færslu en ég neyddist til þess að taka mér samfélagsmiðla og lífspásu. Ég er þó eiginlega í pásu frá öllu ennþá af læknisráði og verð það næstu tvær vikurnar en ég ákvað að skrifa þessa færslu aðallega fyrir mig og kannski get ég hjálpað einhverjum.

Ég komst af því að ég væri ólétt fyrir rúmum þremur vikum síðan. Það var smá sjokk en samt sem áður mikil gleði hjá mér og Steinari kærastanum mínum. Við fórum spennt og stressuð í snemmsónar. Í sónarnum var ekkert fóstur að sjá. Þetta var allt saman mjög undarlegt þannig kvennsjúkdómalæknirinn lét mig taka þungunarpróf og sendi mig í blóðprufu. Samkvæmt þungunarprófinu og blóðprufunni þá var eins og ég væri ólétt en ekkert fóstur að sjá í leginu. Næstu vikur einkenndust af daglegum blóðprufum, mjög mikilli óvissu og skoðunum uppá kvenndeild Landspítalans því það var grunur um utanlegsfóstur. Eftir tvær vikur í óvissu var þetta greint sem utanlegsfóstur.

Þegar það var sagt við mig að þetta gæti verið utanlegsfóstur þá auðvitað fór ég og spurði Dr.Google hvað utanlegsfóstur væri og það leið næstum yfir mig. Fyrsta setningin sem ég las var “lífshættulegt”. Ég mæli svo sannarlega ekki með að googla, það er alls ekki gott fyrir andlegu hliðina. Mér leið líka eins og ég væri ein í heiminum sem væri að fá þetta því ég hafði aldrei heyrt um þetta og flestar af vinkonum mínum höfðu heldur aldrei heyrt neitt um þetta. Síðan þegar maður byrjar að tala meira og meira um þetta þá er alltaf einhver sem maður þekkir sem hefur því miður lent í þessu.

Utanlegsfóstur getur verið lífshættulegt og er eitt af því erfiðasta sem þau greina uppá kvennadeild. Það þarf yfirleitt alltaf að fara í skurðaðgerð og láta fjarlægja annan eggjaleiðarann, þar sem fóstrið er. Ég þurfti því miður að fara í skurðaðgerð og láta taka annan eggjaleiðarann minn. Ég get ekki lýst því með orðum hvað þetta var mikið sjokk að heyra 25 ára og ekki bjóst ég við að fyrsta þungunin mín myndi enda svona.

Mér hefur sjaldan liðið jafn illa og hrædd. Ég vissi ekkert hvað væri í gangi þessar tvær vikur og var mjög óþægilegt að fá aldrei hreint út svar. Ég var samt í ótrúlega góðum höndum uppá kvennadeild og allir að reyna gera allt fyrir okkur. Það var líka mjög erfitt að missa svona mikið af skólanum og vinnu. Ég á líka mjög erfitt með að gera ekki neitt og slaka bara á en seinustu tvær vikur var ég eiginlega bara lömuð af hræðslu og mikilli vanlíðan.

Steinar ákvað að raka á sig mottu fyrir aðgerð haha og var að reyna hressa mig við með því að taka eina selfie

Það er aldrei lognmolla í kringum okkur Steinar en þegar hann var nýbúin í aðgerð sjálfur á hnénu þá komumst við að þessu með mig. Þannig mars er búin að vera vægast sagt skrautlegur og skrítinn mánuður.

Ástæðan afhverju ég er að segja frá þessu er vegna þess að ég var í áfalli þegar ég komst að þessu. Mér leið eins og ég væri gölluð.. sem er held ég ein versta tilfinning sem ég hef fundið. Mér leið eins og ég væri að bregðast öllum og þá sérstaklega Steinari. Afhverju gat þetta bara ekki virkað.. mér leið svo ein. Það hjálpar mér þó ótrúlega mikið að tala um þetta því að það hafa fullt af konum gegnið í gegnum þetta og margt sem tengist þessu. Þess vegna finnst mér ótrúlega mikilvægt að tala um þetta, annars líður manni svo einn í þessu. Maður veit aldrei hvað gerist ábakvið samfélagsmiðlana og maður veit ekki hvað hver og einn er að ganga í gegnum.

Ég er þó alls ekki ein þar sem ég hef Steinar, fjölskylduna mína og vinkonur mínar sem eru búin að standa þétt við bakið á mér. Mér finnst ég vera heppnasta stelpan í heiminum að eiga þau og veit ekki hvað ég gerði til að eiga svona gott fólk. Ég veit að allar lífsreynslur gera mann sterkari og get ég ekki beðið eftir að fá líf mitt aftur. Ég ætla þó að passa mig að fara ekki fram úr mér og fara of hratt af stað, það væri mjög mikið ég og var mamma einmitt að enda við að hringja í mig til að tjékka hvort ég væri ekki örugglega upp í rúmmi haha.

Takk innilega fyrir að lesa alltaf og takk fyrir allar fallegu kveðjunar sem ég er ennþá að vinna mig í gegnum á instagram xx

Ykkar einlæg, Guðrún Helga Sørtveit 

BURSTAR FYRIR BYRJENDUR

Skrifa Innlegg

6 Skilaboð

  1. SB

    25. March 2019

    skil þig vel fyrir utan að þurfa að fara í aðgerð ég missti fóstur í byrjun mars og var bara að komast að því í síðustu viku að mögulega var þetta utanálegs fóstur þar sem annar eggjaleiðarinn er eitthvað skaddaður viriðst vera. Er enn í blóðprufum til að kanna málin. En vonandi losaði líkaminn þetta bara út allt saman. Svo þarf ég bara að bíða og sjá til með eggjaleiðarann. Maður á ekki von á að fyrsta þungunin mans fari svona. styrkur og knús til ykkar.
    takk fyrir að skrifa um þetta

  2. Elísabet Gunnarsdóttir

    25. March 2019

    Elsku Guðrún ofurhetja – knús til þín.
    Flott hjá þér að deila lífsreynslunni – hjálpar eflaust mörgum í sömu stöðu <3 áfram þið!

  3. Andrea Fanný Ríkharðsdóttir

    25. March 2019

    Leitt að heyra að þú hafir þurft að fara í gegnum þetta – takk fyrir að deila <3

  4. Svart á Hvítu

    25. March 2019

    Er búin að hugsa stanslaust til þín elsku besta <3
    Knús á þig og batakveðjur, þú ert alveg ótrúlega sterk að geta opnað þig svona um þessa lífsreynslu.
    <3

  5. AndreA

    25. March 2019

    Elsku þið
    ❤️
    Maður verður hálf orðlaus, ömurlegt að lenda í svona.
    Ég sendi baraknús og góða strauma á ykkur ❤️
    Lovelove
    A

  6. Hafdis

    25. March 2019

    Samhryggist ykkur innilega ❤️ Haldið þétt utan um hvort annað og leyfið ykkur að syrgja það sem var byrjað. Ég hef kynnst því oftar en einu sinni að missa fóstur og allar tilfinningarnar sem koma eiga svo rétt á sér og líka fyrir pabbana! Þeir eiga það til að gleymast. Knús til ykkar og gangi ykkur ótrúlega vel með framhaldið ❤️