Halló!
Fyrir nokkrum mánuðum var ég að rúlla í gegnum instagram, rekst þar á ótrúlega flotta stelpu sem er að hanna fallegar flíkur. Þetta er hún hæfileikaríka Saga Sif. Mér fannst ég verða að deila henni og hennar hönnun með ykkur hérna á Trendnet. Mér finnst flíkurnar hennar svo klæðilegar og manni, eða allavega mér ,líður svo vel í þeim. Saga er búin að pæla í öllum smáatriðum, sem gera flíkurnar hennar svo einstakar.
Mig langaði svo að kynnast henni betur, hennar hönnun, hvar hún fær innblástur og öllu sem því tengist, þannig ég ákvað að taka hana í smá spjall. Ég hlakka svo sannarlega til að halda áfram að fylgjast með henni og hvað hún á eftir að gera meira í framtíðinni.
Hver er Saga Sif?
Ég heiti Saga Sif Gísladóttir og er 25 ára Hafnfirðingur, ég útskrifaðist úr Fjölbrautarskólanum í Garðabæ af Fatahönnunar og textílbraut árið 2015. Árið 2018 sótti ég um Fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands og komst inn og var núna að klára mitt annað ár þar. Ég hef æft handbolta í yfir 10 ár og var núna í vor að skirfa undir samning við Íþróttafélagið Val og þar mun ég spila næsta haust. Íþróttirnar eru mjög stór partur af mínu lífi og er þetta mjög áhugaverð blanda við listina, íþróttirnar hafa gefið mér ótrúlega mikið sem ég hef nýtt mér inní bæði listina og mótað mig sem einstakling. Þar þarftu að vera ákveðin og standa með sjálfri þér, jákvæð og ótrúlega dugleg því engin gerir vinnuna fyrir þig og er það klárlega eitthvað sem ég tileinkað mér þegar kemur að mínu vinnuferli í skólanum.
Hvenær fékkstu áhuga fyrir tísku/hönnun?
Ég hef lengi haft mikin áhuga á tísku og hönnun og hef alltaf verið að vinna mikið í höndunum og með fatahönnun hef ég einnig verið að hanna skart, töskur og macrame vegghengi.
Hvar færðu innblástur?
Það er ótrúlega misjafnt, ég fæ mikin innblástur af instagram, pinterest og af tískusýningum. Þá er ég aðalega að horfa eftir detailum og formum sem hægt væri að taka innblástur frá til þess að gera eitthvað „nýtt“ og áhugavert. Sjálf vinn ég líka mikið með það að reyna ná fram áhugaverðu formi á flík því mér finnst svo ótrúlega gaman að gera eitthvað sem vekur athygli.
Hvað er á döfinni?
Það var ekki fyrr en í covid-19 sem ég fór að hugsa um hvort að ég gæti hugsanlega unnið sjálfstætt í sumar þar sem litla aðra vinnu var að fá. Ég dembdi mér í saumaskapinn og fann strax fyrir miklum áhuga á samfélagsmiðlum.
Mig langar að gera það að markmiði að búa til flíkur sem klæða sem flestar líkamsgerðir og geri ég það með því að nota mikla vídd og teygjan gerir flíkinni kleift að falla fallega á marga líkama.
Ég hef einnig tekið alla afganga sem falla frá við saumaskapinn og langar mig að nýta þá í að gera nokkrar einstakar flíkur og vinna þá í átt að “zero waste“
Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á mynsturhönnun og mig langar að vinna með það í framtíðinni að prenta mín eigin mynstur á efni en hingað til hef ég aðeins notast við „tie-dye“ litun og finnst mér það ótrúlega skemmtilegt.
Það er draumurinn að stofna fyrirtæki og stefni ég á að gera það næsta sumar. Mig langaði að nýta sumarið vel í allskonar undirbúning því næsta haust held ég inní seinasta árið mitt í Listaháskólanum ásamt því að vera á leið inní mjög krefjandi keppnistímabil í handboltanum. Ég stefni á að vera mögulega með nokkarar „pop-up“ sölur yfir þennan tíma.
Hvar er hægt að kaupa af þér flíkur?
Í sumar fékk ég ásamt níu öðrum listamönnum hönnunarstyrk þar sem við fengum húsnæði á Laugavegi 51 og erum þar undir nafninu Upprennandi. Þar höfum við sett upp vinnustofu þar sem fólk getur komið, mátað og verslað við okkur. Ég er einnig mjög virk á Instagram þar sem ég sýni mikið frá því sem ég er að gera og hef ég fundið fyrir miklum áhuga á því einmitt að fylgjast með hönnunarferlinu.
Lokaorð?
Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir öll jákvæðu viðbrögðin sem ég fengið og hefur það klárlega gefið mér drifkraft til þess að vilja gera meira.
Takk æðislega fyrir spjallið elsku Saga. Ég mæli svo sannarlega með að fylgja henni á instagram @sagasifg xx
Takk fyrir að lesa og þið getið fylgst meira með mér hér @gudrunsortveit xx
Skrifa Innlegg