*Vörurnar sem eru merktar með * voru fengnar að gjöf/samstarf
Halló!
Áslaug Rún er orðin þriggja mánaða og langaði mig að fara yfir hvernig fyrstu mánuðirnir eru búnir að ganga. Mér fannst sjálfri svo gaman að lesa, heyra og sjá hjá öðrum hvað var mest notað eða hvernig gekk fyrstu mánuðina. Mér finnst þessir mánðuir hafa liðið svo hratt og trúi varla að hún sé að verða fjögra mánaða eftir nokkrar vikur. Við erum ennþá að koma okkur í rútínu og aðlaga lífinu okkar í kringum þennan nýja lífstíl. Þetta eru án gríns búnir að vera bestu og erfiðustu mánuðir lífs míns. Mér finnst allar klisjur vera sannar og finnst ennþá jafn magnað að við höfum búið hana til.
Mig langaði að fara yfir hvað var mest notað hjá okkur og hverju ég mæli með. Það er samt ótrúlega mismunandi eftir hverjum einum hvað manni finnst vera “must” að eiga og nota fyrir barnið sitt. Börn þurfa bara ást, umhyggju og öryggi. Þannig allt sem ég er að fara mæla með er eitthvað sem virkaði fyrir okkur en síðan gæti það ekki virkar fyrir einhvern annan.
Ég spurði líka fyrir nokkrum vikum á instagraminu mínu og tók saman nokkrar spurningar sem ég ætla deila hérna með ykkur.
Fyrstu vikurnar:
Mér fannst fyrstu vikurnar ótrúlega erfiðar og var ég mikið að ofhugsa allt. Það er bara svo mikið í gangi þessar fyrstu vikur og ef ég gæti mælt með einhverju væri það að takmarka allar heimsóknir, allavega fyrstu tvær vikurnar. Ég veit að allir eru spenntir að hitta barnið og foreldrana en það er mikivægara að barnið og foreldrarnir fái að kynnast.
“Fyrstu dagana og vikunnar hvernig var svefninn hjá henni? Sváfu þið öll saman eða voru vaktir?”
Það er eiginlega enginn svefnrútína fyrstu vikurnar haha en við ákváðum strax frá fyrsta degi að gera alltaf sömu rútínuna á kvöldin og morgnana. Við byrjum semsagt á að skipta á henni, klæða hana í náttföt og svo fær hún alltaf að drekka inn í herbergi. Þetta hjálpar henni að þekkja muninn á dag og nótt. Við vöknuðum alltaf saman fyrstu vikurnar en síðan er sniðugt að skiptast á svo að báðir foreldrar séu ekki búnir á því haha.
“Hvernig voru fyrstu dagarnir? Svefn/stress/andlega líðan?”
Fyrstu daganir voru mjög erfiðir andlega fyrir mig. Tilfinningarnar voru útum allt, sængurkvennagrátur og allur pakkinn. Við þurftum líka að fara aftur uppá Vökudeild þegar hún var þriggja daga gömul og það gerði mig ennþá viðkvæmari. Síðan er eðilegt að vera stressaður fyrstu dagana, þetta er svo nýtt og maður veit í rauninni ekki neitt haha. Ég mæli með að vera alltaf búin að skrifa niður spurningar fyrir heimaljósuna, því maður gleymir öllu eiginlega strax.
BRJÓSTAGJÖF
Kæliskífur (Hydro Nipple Pads)
Brjóstagjöfin gekk ótrúlega vel hjá okkur fyrstu vikurnar og fékk ég ekki sár eða neitt en þetta tekur samt ótrúlega á og mér fannst gott að eiga svona kæliskífur til að setja á eftir brjóstagjöf. Þetta fannst mér koma í veg fyrir sár. Skífurnar koma held ég bara fjórar í pakka og mjög dýrt en endist miklu lengur ef maður klippir í litla búta, þannig nýtir maður vöruna betur.
Góður græðandi varasalvi eða áburður sem inniheldur HPA lanólín. Mjög gott fyrir þurra og sprungna húð s.s. varir, fingurgóma frostsprungnar kinnar og slefexem. Ég notaði brjóstakrem ekki mikið en mér fannst samt ótrúlega gott að eiga svoleiðis fyrstu dagana.
Vá ef það er eitthvað sem ég mæli með að eiga þá er það gjafapúði! Ég fékk minn gefins notaðann á meðgöngunni og ég svaf alltaf með hann á milli fóta, mjög þægilegt fyrir grindina. Síðan fór ég með hann uppá fæðingadeild og gaf henni brjóst þar. Þessi gjafapúði er síðan búin að vera í stanslausri notkun heima og er enn í notkun. Mér fannst líka mjög þægilegt að þegar gestir voru að koma í heimsókn að bjóða þeim að setja gjafapúðann undir, uppá öryggi og þægindi fyrir þau. Mæli svo mikið með að eiga góðan gjafapúða!
SVEFN
Hreiður (babynest) er eitthvað sem ég mun klárlega nota aftur og erum við ennþá að nota. Ég mæli mikið með babynestinu frá Konges Sljod, þau eru ótrúlega mjúk og frekar stór þannig þau endast lengi. Hreiðrið er líka hannað með öryggi barnsins í huga en dýnan er til dæmis með litlum “kössum” á sem gerir það að verkum að það loftar betur hjá barninu. Einnig er bandið sem heldur hreiðrinu saman, vel falið þannig engin hætta á að flækja sig í því. Ég er allavega þessi stressaða mamma og lét ljósmóður skoða hreiðrið vel áður en hún fékk að sofa í því, hún gaf allavega grænt ljós á þetta. Ég mæli samt alltaf með að spurja heimaljósuna og engin spurning er asnaleg. Henni leið og líður allavega ótrúlega vel í þessu hreiðri. Ég held að börn finnist þau vera örugg í hreiðri og minnir á þegar þau voru í maganum.
Hitapoka
Við hituðum alltaf hreiðrið hennar með hitapoka áður en við lögðum hana í rúmmið. Ungabörn eru svo viðkvæm fyrstu dagana og líður best hitanum, þannig að volgt hreiður er ótrúlega notanlegt fyrir þau. Við gerðum þetta á hverju kvöldi áður en hún fór að sofa fyrir nóttina.
Uglupoka/Swaddle
Við notðum uglupoka alveg þangað til hún varð og of stór í hann en það er sagt að börnum líði ótrúlega vel þegar það er búið að pakka þeim inn eins og “burrito” því þannig voru þau í maganum. Fyrir ykkur sem vitið ekki en þá er uglupoki prjónaður poki og mæli ég með að plata einhvern prjónasnilling að gera svona fyrir ykkur.
Vagga
Vagga er eitthvað sem við notuðum mikið og mæli ég sérstaklega með Moses Basket*. Okkur fannst ótrúlega þægilegt að geta haft hana hjá okkur á meðan hún svaf á daginn. Það er hægt að vagga henni fram og til baka, taka körfuna af grindinni, sem var mjög þægilegt ef maður fór til dæmis á klósettið og vildi ekki vekja hana en vildi hafa hana hjá sér. Við prófuðum líka þessa klassísku vöggu sem margir kannast við og eru líka ótrúlega góðar og fallegar en mér fannst meira fara fyrir henni og þegar maður er í lítilli íbúð þá er gott að hafa eitthvað sem tekur ekki mikið pláss.
BLEYJUSKIPTI
Ubbi Diaper Caddy
Ég sá þetta fyrir löngu áður ég varð ólétt og áður en þetta var komið til Íslands, lagði þetta á minnið því mér fannst þetta svo sniðugt. Þetta er bleyjubox sem hægt er að geyma allt sem þú þarft til þess að skipta á barninu. Við búum í lítilli íbúð og er mjög þægilegt að geta tekið þetta með þegar við skiptum á henni inn í stofu eða svefnherberginu. Það er einnig pláss fyrir heimatilbúnar blautþurrkubox.
Libero Touch Bleyjurnar*
Ég verð síðan að fá að mæla með þessum bleyjum. Við notum alltaf Libero Touch bleyjurnar og hafa þær reynst okkur best. Það sem heillar okkur svo mikið við þær er að það er vökva lína. Línan er gul þegar bleyjan er þurr en blá þegar hún blaut og þarf að skipta á henni. Þetta er svo þægilegt og auðveldari manni mjög mikið til dæmis á nóttunni þegar maður er þreyttur að kíkja bara og sjá hvort maður sjái bláa línu. Bleyjurnar eru líka einstaklega mjúkar og leka ekki auðveldlega. Einnig eru þær svansmerktar en svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og eru strangar kröfur sem vörur þurfa að uppfylla til að mega vera svansmerktar og eru þær vörur betri bæði fyrir umhverfið og heilsuna.
FATNAÐUR
Samfellur/samfestingar
Þegar maður eignast barn þá er mjög fyndið hvað maður hefur allt í einu mikla skoðun á barnafötum og sér mjög fljótt hvað hentar sínu barni. Þannig mér finnst mjög erfitt að mæla með eitthverju því þetta er svo misjafnt eftir hverjum og einum. En það voru sumar samfellur og samfestingar í meira uppáhaldi en aðrar.
Við héldum mikið uppá ungbarnagalla frá Konges Sljod en ég keypti þá í Petit. Það sem mér fannst svo þægilegt við þessa galla er að það er hægt að opna þá alveg, þannig það er ótrúlega auðvelt að klæða ungabörn. Ég forðaðist allt sem mér fannst of þröngt til að setja yfir höfuðið. Síðan fannst mér æðislegt að eiga ullargalla og var mikið með hana í merino ull fyrstu vikurnar. Uppáhalds galli pabbans og veit ég að eru í uppáhaldi hjá mörgum öðrum eru uglugallarnir frá Soft Gallery. Þeir eru ótrúlega mjúkir, vaxa með barninu og auðvelt að skipta á barninu.
“Var eitthvað sem þið sáuð eftir að hafa keypt og notuðu ekki?”
Það margt sem ég hefði geta beðið með að kaupa og ekki eins mikið stress og maður hélt. Til dæmis mexíkana hattinn, fullt af taubleyjum og margt annað sem hægt er að hoppa frekar út í búð og kaupa ef manni vantar. Mér fannst ég líka smá klaufi við að kaupa réttu stærðinar en ég mæli með að eiga minna heldur en meira af fötum og kaupa kannski bara þrennt í hverri stærð. Ég keypti til dæmis alltof mikið í 56 en ekkert eiginlega 62. Stærðir eru samt ótrúlega mismunandi og eru hún til dæmis ennþá að nota sumt í 56. Ég keypti líka alltof mikið af sokkum. Sokkar detta bara af ungabörnum og notar hún til dæmis bara þrenn sokkapör því þau eru einu sem detta ekki af henni haha. Ég tók hreiðurgerðina alla leið og vildi hafa allt fullkomið en síðan þegar ég fékk hana í hendurnar þá skiptir allt það engu máli, hún er það eina sem skiptir máli. Maður verður samt að læra sjálfur og sjá hvað hentar manni.
“Hvað finnst þér ekki nauðsynlegt að eiga?”
Eins og ég segi þá fer það rosalega eftir hverjum og einum hvað manni finnst “nauðsynlegt”. Við vorum ekki með skiptiborð og er það eitthvað sem mér persónulega finnst ekki nauðsynlegt.
“Hvað sérðu eftir að hafa ekki átt þegar hún fæddist?”
Það er ekkert sem ég sé eftir að hafa ekki átt nema kannski við hefðum vilja eiga almennilegt swaddle.
Vonandi hjálpar þetta einhverjum og þið höfðuð gaman af xx
Þið getið lesið allt um hvað ég tók með mér í heimferðar/spítalatöskuna hér
Hvaða matarstól við völdum hér
Takk fyrir að lesa og þið getið fylgst meira með mér hér @gudrunsortveit xx
Skrifa Innlegg