fbpx

FALLEG KERAMIK LÍNA FRÁ H.LOFT

Halló!

Ég hef lengi ætlað að segja ykkur frá henni Hildi Árnadóttur og gullfallegu keramik línunni hennar sem ber nafnið Skel sem er hannað undir nafninu h.loft. Ég hef verið að fylgja Hildi í nokkur ár og alltaf fundist hún einstaklega glæsileg. Hún er algjör tískudrottning, listræn og smekkkona. Hún útskrifaðist með BA gráðu í arkitektúr vorið 2020 og fór stuttu seinna að hanna keramik línu undir nafninu h.loft. Þetta eru skálar sem bera nafnið Skel en skálarnar eru með þeim fallegri sem ég hef séð og varð ég að kaupa af henni. Það er alltaf gaman að fylgjast með ungum konum vera skapa og gera góða hluti. Ég ákvað því að senda á Hildi og athuga hvort hún væri ekki til í smá spjall. Það var yndislegt að hitta Hildi, hún er með einstaklega góða nærveru og gaman spjalla um hönnunarferlið, sem hún talaði um af mikilli ástríðu.

Hver er Hildur?
Ég heiti Hildur Árnadóttir og er 26 ára, fædd og uppalin í Reykjavík. Ég útskrifaðist með BA. gráðu í Arkitektúr vorið 2020 og vinn í dag á Arkitektastofunni dap. Í byrjun árs hóf ég að hanna og framleiða mína eigin keramik línu undir nafninu h.loft.

Hvernig byrjaði h.loft?
Ég hef alltaf verið mjög listræn, haft mikin áhuga og þörf fyrir að skapa. Þegar aðrir krakkar fóru á leikjanámskeið fór ég á myndlistar-, keramik- og listanámsskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík og fleiri stöðum.  Ég fór t.d. á mitt fyrsta keramiknámsskeið þegar ég var 7 ára og hef sótt fleiri námskeið í keramik eftir það.  Það er síðan ekki fyrr en á síðasta árinu mínu í Arkitektúr eða í fyrra að ég og nokkrir krakkar úr bekknum mínum förum á opin keramik kvöld í LHÍ. Þetta var um það bil sem covid var að byrja og skólinn lokaði stuttu seinna svo þessi keramik kvöld urðu ekki mörg. Í desember ákveð ég síðan að kaupa mér leir, áhöld og byrja að prófa mig áfram sjálf. Ég fór að skapa allskyns form og hluti en mjög fljótlega kom skeljaformið fram. Ég kalla skálarnar mínar skeljar sem er vísun í fíngerðar og kúrvaðar brúnir skeljarinnar. Skeljarnar fengu strax mikla athygli og í lok desember seldi ég fyrstu skálina. 

Hvernig er framleiðsluferlið?
Það er mikið spurt út í framleiðsluferlið, t.d. hvort einhver framleiði þetta fyrir mig eða hvort ég helli þessu í mót. Ég handgeri hverja og eina skál og er eini aðilinn sem kem að framleiðslu þeirra. Það tekur um sjö til átta daga að gera hverja skál. Fyrst leira ég skálina og móta, ég nota ekki form heldur handmóta þær svo engin þeirra er eins. Eftir að þær eru mótaðar þurfa þær að þorna í nokkra daga og fara síðan í fyrri brennslu sem er rúmur sólarhringur. Þegar þær koma úr ofninum pensla ég þær með glerungi og þá fara þær í annað sinn í ofninn í rúman sólarhring. 

Hvaðan færð þú innblástur?
Í rauninni alls staðar frá, til dæmis úr umhverfinu en finnst líka æðislegt að skoða instagram og pinterest. Annars er ég með frjóan huga og hausinn minn er að springa úr hugmyndum. Ég hef mikinn áhuga á tísku og hef gaman af því að klæðast flíkum sem grípa augað og þú sérð ekki hvern sem er í. 

Eins hef ég mikinn áhuga á stólum og þá sérstaklega þeim sem maður sér ekki á hvaða heimilum sem er. 

Hvað skeljarnar varðar þá kom sú hönnun eftir tilraunastarf þar sem ég lagði áherslu á mjúkt form og kúrvaðar línur. 

Hvaðan kom nafnið h.loft? 

Pabbi minn er mjög listrænn og flinkur að teikna og mála. Þegar ég var u.þ.b. 3 ára vorum við með óinnréttaða efri hæð sem við nýttum sem gallerí sem við kölluðum gallerí h-loft. (“HÁ” loft sem eru fyrstu stafirnir í nöfnunum okkar). Það skemmtilegasta sem ég gerði var að mála olíuverk með pabba og má segja að þarna hafi listaferill minn hafist. Hann á risastóran part í hversu listræn ég er. Mér þykir svo vænt um þetta nafn og þessar minningar og með vísun í hvernig þetta byrjaði allt saman langaði mig að tengja þetta upprunanum og hanna undir nafninu h.loft.

Hvað er framundan? 
Þar sem ég brenn mest fyrir arkitektúrnum er markmiðið að komast meira inn í þann heim og þróa mig áfram sem arkitekt. Stefnan er svo sett á mastersnám á næstunni. Það er síðan aldrei að vita nema ég komi með aðra línu undir h.loft en ég er með fullt af hugmyndum og stefni að frekari vöruþróun.

 

Hvar er hægt að nálgast skálarnar?
Það er hægt að hafa samband við mig í gegnum @h.loft á instagram til þess að panta skálar. Ég er með aðstöðu í bílskúrnum hjá mér þar sem ég býð fólki að koma og skoða. Eins er ég að senda út á land til þeirra sem óska eftir því.

Þessar skálar eru svo fallegar og það er hægt að nota þær í svo margt. Takk æðislega fyrir spjallið elsku Hildur, hlakka til að fylgjast með þér! Ég mæli með að fylgja Hildi á hennar instagrami @hildurarnad og að sjálfsögðu kíkja á fallegu skeljarnar á @h.loft xx 

SUMARDAGURINN FYRSTI

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. sigridurr

    26. April 2021

    Svo fallllegt hjá elsku Hildi! xxxxx