fbpx

ÁRIÐ 2019

LÍFIÐMEÐGANGA

Halló!

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og takk fyrir árin hérna á Trendnet xx

Ég var mikið að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fara yfir árið því ég vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að koma því í orð hvernig 2019 er búið að vera. Í byrjun árs gat ég ómögulega séð fyrir mér að óléttumyndir og annað meðgöngutengt myndu einkenna 2019. Þetta ár er búið að vera svo mikill tilfinningarússíbani. Mikil sorg og gleði sem er búið að einkenna þetta ár og má segja að ég smá andlega búin á því.

Mér finnst svo ótrúlegt að hugsa út í það að í byrjun árs varð ég ólétt í fyrsta skipti á ævinni. Sjokk en samt mikil tilhlökkun. Ég og Steinar búin að vera þá saman í 8 ár og var það alltaf planið að stofna fjölskyldu. Við Steinar fórum spennt saman í snemmsónar og sáum að það var ekkert í leginu en eftir tvær vikur af daglegum blóðprufum og óvissu var niðurstaðan sú að um utanlegsfóstur var að ræða. Öll þessi gleði og tilhlökkun tekin frá manni, barnið sem maður var strax byrjaður að sjá fyrir sér ekki lengur inn í myndinni. Það eina í stöðunni var aðgerð og láta fjarlægja annan eggjaleiðarann. Þetta gekk allt vel en ég hefði ekki getað ímyndað mér hvað þetta myndi taka mikið á andlegu hliðina, kvíði og hræðsla sem er búin að fylgja mér allt árið 2019.

Það var ótrúlega erfitt fyrir mig að opna mig um þetta hér á Trendnet og öðrum miðlum því ég er yfirleitt ekki að deila svona persónulegum hlutum hér en ég vissi að þetta myndi hjálpa mér og vonandi öðrum. Þetta kenndi okkur Steinari svo ótrúlega mikið og vorum við svo þakklát þegar ég varð ólétt eiginlega strax aftur eftir þetta. Ljósið í myrkrinu. Ég er svo óendanlega þakklát og svo stolt af okkur að hafa staðið saman í gegnum þetta.

Þetta ár hefur sýnt mér hvað ég á að góða að og hvað andlega heilsan er mikilvæg. Þennan lærdóm ætla ég að taka með inn í næsta ár. Ég ætla halda áfram að vera jákvæð, hafa meiri trú á sjálfri mér, elta draumana mína og vinna í andlegu hliðinni. Ég fer full tilhlökkunar og þakklát inn í árið 2020.

Takk fyrir að lesa alltaf  og ég hlakka til ársins 2020 á Trendnet xx

Ykkar einlæg, Guðrún Helga Sørtveit 

Instagram: gudrunsortveit

FÖRÐUNARTREND 2020

Skrifa Innlegg