Halló!
Tíminn líður ótrúlega hratt en mjög hægt á sama tíma þessa dagana. Skólinn hjá mér er að klárast eftir tvær vikur og þá byrja lokaprófin. Ég get hreinlega ekki líst því hvað ég er spennt að klára skólann og geta einbeitt mér að hreiðurgerðinni. Mig langar að nýta desember í að klára allt þetta helsta sem ég á eftir að gera fyrir komu barnsins. Þetta er mjög skrítin tilfinning, þessi hreiðurgerð en mig langar gjörsamlega að snúa öllu á hvolf og liggur við þrífa allt sentímeter fyrir sentímeter. Ég er að byrja smátt og smátt en hlakka til að geta gefið mér tíma í desember.
Núna er ég hinsvegar komin 28 vikur og trúi því varla. Það eru 12 vikur eftir og er ég mjög spennt að sjá hvort þessi tími verði jafn lengi að líða og þessar fyrstu 12 vikur. Ég er komin á þriðja og seinasta hluta meðgöngunnar og langar mig aðeins að fara yfir með ykkur hvernig vikurnar eru búnar að vera. Mér finnst sjálfri svo gaman að lesa svona og gaman að tengja við aðra sem eru að ganga í gegnum þetta ferli.
Fyrsti þriðjungur
Mér fannst fyrstu vikurnar mjög erfiðar. Ég var með ógleði en ældi sem betur fer sjaldan. Andlega hliðin var samt lang erfiðust og var ég mjög kvíðin allan tímann og alla daga. Þetta leið svo hægt í minningunni (maður er mjög fljótur að gleyma) en þetta tók mikið á og var líka skrítið að finna fyrir hvernig líkaminn væri að breytast.
Annar þriðjungur
Þessi annar þriðjungur var að ljúka og verð ég að segja að mér leið yfir heildina mjög vel. Það eru auðvitað alltaf einhverjir meðgöngukvillar sem maður upplifir en yfir heildina litið leið mér mjög vel. Ég er mjög heppin að geta verið í fullu námi, nánast fullri vinnu og ásamt því að sinna öllu hinu. Ég fór á æfingar og get gert nánast allt sem ég gat áður. Líkaminn er þó mun þreyttari sem er mjög skrítið fyrir mig. Ég var týpan sem gat sofið í 4 tíma og allt var í góðu, var full af orku en núna er ég alltaf þreytt. Ef það er mikið að gera hjá mér og passa mig ekki, þá fæ ég að finna fyrir því daginn eftir.
Núna er þriðji og seinasti hluti meðgöngunnar að byrja og er ég mjög spennt en samt smá kvíðin. Það er mikið að gera hjá mér þessa stundina og er ég alltaf að passa mig að hlusta á líkamann og á andlegu hliðina. Það sem ég finn kannski mest fyrir eftir að hafa verið ólétt núna í 28 vikur er hvað maður er ólíkur sjálfum sér, mjög erfitt að útskýra en mér líður ekki 100% ég sjálf. Ég held að margir tengi við þessa tilfinningu sama hvernig meðgangan er.
Ég verð líka að fá að deila með ykur að fyrir um það bil viku síðan fékk ég babyshower/barnasturtu/steypiboð, hvað sem maður nú segir en fékk þessa yndislegu óvæntu veislu frá fjölskyldu og vinum. Þetta var yndislegt og er ég ennþá hissa, það er eitthvað svo óraunverulegt við það að fá babyshower og er ég svo þakklát fyrir hvað allir tóku sér tíma í þetta og gerðu þetta allt fyrir okkur. Óendanlega þakklát!
Næst á dagskrá er síðan námskeið sem ég er búin að skrá mig á, annars vegar brjóstagjafanámskeið og fæðingarnámskeið. Ég er mjög spennt fyrir því og er búin að lesa mig mikið til um hvoru tveggja. Það hjálpar mér allavega mikið að lesa mig til um þessa hluti, því mér finnst ekkert verra en að vera í mikilli óvissu, sem þetta ferli er að miklu leyti.
Hlakka til að sjá hvernig síðasti þriðjungur verður!
Takk fyrir að lesa xx
Guðrún Helga Sørtveit
Skrifa Innlegg