Reykjavik Fashion Journal

Leyndarmál Makeup Artistans: Sumarhúð!

Ég Mæli MeðHúðMakeup ArtistMakeup TipsSS14

Það kemur eflaust fáum ykkar á óvart að ég er ekki ein af þeim sem æfir af kappi í ræktinni til að verða sér útum bikiní líkama fyrir sumarið – ég er voða kærulaus þegar kemur að einhverju svoleiðis. En þegar kemur að því að koma húðinni í gott jafnvægi til að fá fallegan lit sem endist lengi og næra húðina vel í sólinni þá fæ ég toppeinkun! Mig langaði að deila með ykkur nokkrum tipsum til að gera húðina reddí fyrir sumarfríið.

Undirbúningur er mikilvægur sama hvort þið eruð að fara til sólarlanda eða bara setja á ykkur sjálfbrúnkukrem til að vera með fallegan lit á húðinni í sundi. Húðskrúbbur er möst fyrir hvert baðherbergi til að pússa húðina, fegra yfirborð hennar og fyrst og fremst hjálpa húðinni að endurnýja sig og losa sig við dauðar húðfrumur.

sumarhúð4

 Myndatextinn: „Það er alltaf gott að hafa í huga að nota góðan líkamsskrúbb einu sinni í viku til að hjálpa húðinni að endurnýja sig. Mér finnst alltaf best að vera með skrúbb í sturtunni svo ég gleymi alveg örugglega ekki að nota þá. Eftir því sem við eldumst hægist á endurnýjun húðarinnar og því er enn mikilvægara að muna eftir skrúbbunum. Þegar þið eruð búnar að skrúbba húðina er alltaf nauðsynlegt að næra hana vel með góðu bodylotioni.“

Góð næring er nauðsynleg a.m.k. eftir allar sturtuferðir. Við setjum krem á andlitið eftir að við hreinsum húðina til að gefa húðinni góða næringu og það þurfum við líka að gera fyrir líkamann. Eins og með andlitið er gott að hafa í huga að velja líkamskrem sem hentar ykkar húðtýpu. Líkaminn er þó sjaldan of glansandi eða með umfram olíu á sér eins og andlitið svo oftast er valið á milli þess að nota húðkrem fyrir normal eða þurra húð. Ef þið eruð ekki alveg með á hreinu hvort þið þurfið þá er gott að fylgjast með fótleggjunum. Ef það koma hvítar flögur á sokkabuxurnar ykkar þegar þið dragið upp sokkabuxurnar ykkar þá eruð þið með þurra fótleggi og þurfið bæði að skrúbba og næra :)

Mér finnst sjálfri langbest að vera með rakakrem fyrir húðina sem er með pumpu – pumpur gera lífið svo miklu einfaldara:)

Það eru til alls konar krem sem þétta húðina og fá hana til að draga sig saman. Mörg þeirra hafa kælandi áhrif á húðina sem mér persónulega finnast mjög þægileg.

sumarhúð1

Myndatextinn: „Krem/gel/húðmaski sem hafa stinnandi áhrif á húðina, Þannig draga þau úr ójöfnu yfirborði og jafna áferð húðarinnar. Þessi er gott að nota beint eftir sturtu. Maskann frá Make Up Store á að þrífa af húðinni eftir um 10 mínútur.“

Eftir að við höfum verið úti í sólinni er nauðsynlegt að næra húðina vel.

sumarhúð3

Myndatextinn: „Hér eru á ferðinni tvær vörur sem mér þykja ómissandi fyrir sumarið. Næringarríkt rakakrem fyrir líkamann sem heldur litnum fallegri, kælir húðina og hjálpar henni að jafna sig eftir sólina. Svo er það léttur olíu ilmur sem er frábær eftir kælandi sturtu eftir sólina til að gefa húðinni mýkt og mikinn raka.“

Ég er alfarið á móti ljósabekkjanotkun – sjálf datt ég í þá þegar ég var í menntaskóla og ég held það sé fátt sem ég sé jafn mikið eftir og sú vitleysa í mér. Í dag eru sjálfbrúnkuvörur mjög góðar og með tilkomu merkja eins og St. Tropez er leikur einn að gefa húðinni fallega litinn sem þið viljið. Stigvaxandi sjálfbrúnkukrem mætti nota sem rakakrem og gefur þá bara smá lit og svo meiri og meiri lit eftir hvert skipti. Það sem er þó mikilvægt að hafa í huga til að láta sjálfbrúnku endast er að nota alltaf rakakrem sem er olíulaust þar sem olían leysir sjálfbrúnkuna upp og gerir það að verkum að við verðum flekkóttar – það vill enginn;) Húðrakakremin frá St. Tropez eru t.d. án olíu :)

sumarhúð5

Myndatextinn: „Sumir vilja vera komnir með smá lit fyrir sumarið. Þá mæli ég eindregið með notkun á sjálfbrúnkuvörum en ég forðast ljósabekki eins og heitan eldinn! Bestu vörurnar eru að mínu mati þær frá St. Tropez – merkið tekur vörurnar á næsta stig og skila fallegum og náttúrulegum lit á líkamann. Hér sjáið þið vörur sem gefa stigvaxandi lit og það krem nýtist einnig sem rakakrem fyrir líkamann og svo er það krem sem gefur samstundis lit sem fer síðan af í sturtu. Olíuliturinn er svo sá sú vara sem mig langar sjálfri að prófa næst frá merkinu.“

Ef þið skellið ykkur í sólarlandaferð eða takið sundferð á heitum degi á Íslandi í sumar er frábært að vera með einn frískandi ilm í töskunni. Mér finnst best að vera með Eau Fraiche ilmi þar sem þeir eru mun léttari og meira eins og body spray.

sumarhúð2

Myndatextinn: „Mér finnst ómissandi að eiga einn Eau Fraiche ilm fyrir sumarið til að fríska uppá vitin eftir góða sundferð. Fraiche ilmirnir eru ótrúlega léttir og minna margir hverjir alla vega mig á frískandi sjávarloft. “

Ég vona að þessi ráð geti hjálpað ykkur eitthvað í sumar – ef ekki þá bara til að hjálpa ykkur að pakka niður fyrir sólarlandaferðina. Ráðin sjálf finnið þið á myndunum. Mig langaði voðalega mikið að gera skemmtilega myndauppsetningu fyrir þessa færslu og mér finnst það bara hafa tekist ansi vel – vona að þið séuð sammála. Ef einhverjum finnst óþæginlegt að lesa textann á myndunum þá er það sami textinn sem er skásettur fyrir neðan þær – bara til öryggis eða ef þið eruð að lesa í símanum og svona :)

EH

Sumarið frá Chanel

ChanelFallegtFashionmakeupMakeup ArtistNýjungar í Makeup-iSS14Trend

Árstíðarlínurnar frá snyrtivörumerkinu Chanel finnst mér ómissandi að fylgjast með og kynna mér þegar þær koma. Ég veit að ég er ekki ein um það.

Línurnar frá Chanel og þessum stærri merkjum eru venjulega þær sem eru mótaðar eftir förðunartrendum hverrar árstíðar og innbláusturinn er nánast fallegri en vörurnar sjálfar.

Lína sumarsins nefnist Reflets D’été de Chanelog einkennist af sterkum og áberandi litum sem eru ekkert endilega gerðir til að passa beint saman. En oft eru það andstæður sem dragast saman og á endanum passa bara betur saman. Ég fékk nokkur sýnishorn til að prófa og sýna ykkur. Ég viðurkenni það fúslega að mér finnst fá naglalökk koma í jafn fallegum umbúðum og þessi frá Chanel.

sumarchanel5

Þegar ég breyttist í varalitakellingu þá hætti ég nánast alveg að nota gloss. En ég hef notað þennan uppá hvern einasta dag síðustu vikuna – síðan ég fékk hann. Glossinn er bara virkilega fallegur, hann klístrast ekki og liturinn er frekar þunnur svo í staðin fá varirnar mínar fallegan ljóma og þær líta út fyrir að vera frísklegri.

Mér finnst kostir og gallar við lökkin frá merkinu en það sem fellur eiginlega í báða flokka er hvað þau eru þunn. Þunn lökk eru ekki með eins góðri endingu en þau eru fljót að þorna og því er ekkert mál að byggja upp þéttingu. Ég set venjulega þrjár umferðir af Chanel lökkunum á neglurnar – á myndunum sem þið sjáið hér neðar eru reyndar bara tvær. Með réttu undir- og yfirlakki er hægt að láta öll naglalökk endast vel og ég nota aldrei naglalakk án auka lakkanna minna.

sumarchanel3

Hér er ég með glossinn og orange lakkið á nöglunum. Þó línan sé byggð á andstæðum þá smellpassa þessir tveir litir saman. Ótrúlega sumarlegir og skemmtilegir litir!

sumarchanel4

Hér er á ferðinni bjartur en pastel orange litur sem heitir Mirabella nr. 623 – hér er ég með tvær umferðir á nöglunum – ekkert yfirlakk þó ég nota ekki svoleiðis þegar ég tek test myndir fyrir bloggið. Ég byrjaði á því að vera með þennan á nöglunum og liturinn entist alveg heill án hnjasks í 3 daga – aftur ekkert yfirlakk þegar ég testa.

sumarchanel

 

Hér er á ferðinni bjartur og sumarlegur bleiktóna litur Tutti Frutti nr. 621. Ég er ekki búin að testa þennan nógu vel þar sem ég fann fyrir löngun til að skipta um lit þegar ég var búin að vera með hann á nöglunum í tvo daga – en þá var hann enn heill :)

Summer2014_collection

Hér fyrir ofan sjáið þið official auglýsinguna fyrir línuna en HÉR getið þið skoðað vörurnar í línunni í heild sinni. Ég þarf endilega að skoða fjólubláa maskarann betur næst þegar ég kíki í Hagkaup. Fallegur litaður maskari er alveg jafn ómissandi þetta sumar og þeir voru síðasta.

EH

Vörurnar sem ég sýni í þessari færslu fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit á vörunum.

 

Kíkt í snyrtibudduna: Heiðdís Lóa

Makeup ArtistMakeup Tips

Nú er komið að uppáhalds liðnum mínum á síðunni minni. Þegar ég fæ að leika spæjara og kíkja í snyrtibuddur yndislegra kvenna og fræðast um þeirra förðunartakta.

Heiðdís Lóa er ótrúlega hæfileikarík stelpa sem er eins og ég förðunarfræðingur. Nafnið hennar ættuð þið að kannast við því hún heldur úti ótrúlega skemmtilegu og fallegu bloggi undir sínu eigin nafni. Bloggið hennar Heiðdísar er eitt þeirra sem ég kíki reglulega á og sérstaklega til að skoða myndirnar hennar. Hún er ótrúlega hæfileikaríkur ljósmyndari og deilir mjög fallegum förðunarmyndum sem hún tekur sjálf á síðunni sinni.

302140_10151280935832952_1207940971_n

Geturðu líst þinni daglegu förðunarrútínu?

Já! Dags daglega mála ég mig ekki mikið. Ég set alltaf á mig CC krem, hyljara undir augun, smá highlight á kinnbeinin, brúnan kinnalit í skyggingu og maskara og svo stundum set ég varalit eða litaðan varasalva.

Prófarðu reglulega nýjar snyrtivörur?

Já og nei, mér finnst mjög gaman að prófa nýjar snyrtivörur og þá sérstaklega þegar ég finn eitthvað nýtt sem mér líkar en svo er ég líka mjög vanaföst í þeim vörum sem mér líkar mjög vel við.

download (1)

Förðun og mynd eftir Heiðdísi Lóu

Hver er uppáhalds maskarinn þinn og afhverju?

Ég held ég verði að segja Telescopic frá L’Oreal. Mér finnst hann lengja augnhárin mjög fallega og klessa þau ekki saman. Mér finnst hann bestur eftir að búið er að nota hann í örfá skipti.

Hvaða húðvörur notarðu?

Núna undanfarið hef ég verið að nota kókosolíu til að taka málinguna af og eplaedik blandað í vatn sem tóner. Ég nota einstaka sinnum kornakrem og þá nota ég kornakrem frá Gatineau, maskinn frá þeim er líka mjög góður en ég nota hann c.i. 1x í mánuði, hann heitir Clear and Perfect. Ég er með frekar þurra húð svo að ég er dugleg að bera á mig rakakrem en ég nota oftast gula kremið frá Clinique (dramitically different mosturizing lotion) og svo er Strobe Cream frá M.A.C. sparikremið mitt en mér finnst það gefa húðinni extra ljóma og fallega áferð.

Áttu eitthvað gott förðunartips sem þig langar að deila með okkur?

Já! Ég set oft smá maskara á handarbakið og svo nota ég lítinn bursta til þess að setja hann alveg upp við augnhárin ofan á þau því maskarinn nær því aldrei alveg 100%.Einnig er hægt að blanda ýmsu út í meik til þess að fá húðina til þess að fá ljómandi áferð eins og lustre drops frá M.A.C sem ég er nýbúin að uppgötva eða Wonder Powder frá make up store, einnig má blanda því út í rakakrem eða dagkrem, algjör snilld finnst mér og gerir ótrúlega mikið!

Hvernig popparðu upp á förðunina þína þegar þú ert að fara fínt út?

Með augnhárum og varalit!

1 2

 Heiðdís Lóa mælir með þessum vörum í nýlegri færslu á síðunni sinni – Red Cherry augnhár og varalitur frá MAC

Hvar verslarðu helst snyrtivörur?

Það er mjög misjafnt en flestar snyrtivörurnar mínar eru frá M.A.C. og Make Up Store.

Hvað þarf til þess að þú prófar nýjar snyrtivörur?

Ég les mjög mikið að umfjöllunum um vörur á netinu, mig langar að prófa vörur sem fá góða dóma, og svo finnst mér líka mikilvægt að sjá vörurnar á einhverjum.

download (2)

Girnilegar matarmyndir eru fastur liður á síðunni hennar Heiðdísar

Er eitthvað snyrtivörumerki sem er meira í uppáhaldi en önnur?

Nei ekki beint, ég á mér frekar uppáhaldsvörur frá hinum ýmsu merkjum og svo er ég alltaf að uppgötva ný og ný merki sem mér líkar vel við.

Hvað finnst þér nauðsynlegt að eiga í snyrtibuddunni fyrir sumarið?

Mér finnst nauðsynlegt að húðin fái að njóta sín á sumrin með léttum farða sem gefur ljóma og fallegum high-lighter á kinnbeinin sem gefur húðinni extra-glow! Að auki finnst mér bleiktóna og appelsínutóna varalitir must á sumrin!

download (4)

Förðun og mynd eftir Heiðdísi – elska þennan varalit!

Notarðu förðunarbursta – ef svo er áttu einhverja uppáhalds?

Já ég á nokkra sem eru í miklu uppáhaldi en það eru: Expert Face Brush frá Real Techniques – hann nota ég fyrir CC krem, meik og stundum hyljara, bursti nr #217 frá M.A.C. finnst mér fullkominn til að blanda augnskugga, bursti #209 frá M.A.C. finnst mér þægilegur í eyeliner og svo held ég mikið uppá e.l.f. blush brush og flawless concealer brush í kinnalit og hyljara og high-light og að lokum er bursti nr 377 góður púður bursti og passar fullkomlega fyrir Wonder Powder-ið mitt frá Make Up Store.

Takk kærlega fyrir að leyfa mér og lesendunum að kíkja í snyrtibudduna hjá þér kæra Heiðdís Lóa! Ég hvet ykkur til að kíkja á síðuna hennar heidisloa.com til að kynnast þessari flottu stelpu betur og stela smá af innblæstri frá síðunni hennar fyrir ykkar farðanir – ég veit að ég hef gert það nokkrum sinnum :)

EH

Möndludásemd

Burt's BeesÉg Mæli MeðLífið MittNýtt í SnyrtibuddunniSnyrtivörur

Ein af nýjustu snyrtivörunum mínum sameinar tvo af mínum uppáhalds hlutum – handáburð og möndlur.

Ég er með rosalega þurrar hendur og ég er því sjúk í handáburði. Ég held að sú snyrtivara sem ég kaupi  mest af sé klárlega handáburður – það er alltaf auðvelt að selja mér svoleiðis:) Ég hef aðeins verið að fá að kynnast vörunum frá Burt’s Bees sem mér finnst mjög skemmtilegar sérstaklega vegna sögunnar á bakvið vörurnar sem ég ætla að skrifa betur um seinna. En fyrst varð ég bara að kynna fyrir ykkur þennan dásamlega handáburð.

Eins og ég segi þá geta hendurnar mínar orðið mjög slæmar af þurrki. Ég nota alltaf dip hreinsa til að þrífa naglalökk og stundum tek ég margar naglalakksmyndir á dag fyrir síðuna. Þá sérstaklega þorna hendurnar upp – ég nota samt alltaf Astintone lausa hreinsa en það er greinilega slæmt að nota þá kannki 10x á dag… :(

Um daginn átti ég þannig dag og ég fann hvað mér leið illa í höndunum – þið vitið hvernig það er þegar hendurnar þorna bara smám saman upp þá líður manni eins og þær séu eins og sandpappír og manni svíður í hendurnar. Ég mundi þá eftir þessum handáburði sem ég átti eftir að finna tækifæri til að testa og þessi er nú kominn í hóp uppáhalds.

möndlur2 möndlur

Handáburðurinn er ótrúlega þéttur og þykkur og þa þarf lítið sem ekkert af honum svo þessi 57 gr ættu að endast mér lengi. Ég er samt ekkert svo bjartsýn því ég er orðin svo húkkt á honum að ég nota hann aftur og aftur og aftur. Ilmurinn finnst mér þó bestur en hann er gerður úr möndlum – en hann ilmar í stíl við innihaldið. Það er svona gómsæt marsípan lykt af honum.

Handáburðurinn inniheldur E vítamín og möndlur sem næra hendurnar og mýkja þær og svo er það býflugnavaxið sem verndar hendurnar á meðan hin efnin vinna á þurrkinum.

Ég er yfirleitt alltaf með einn handáburð á náttborðinu hjá mér – stundum fleiri en nú er þessi þar einn og sér. Það síðasta sem ég geri áður en ég fer að sofa er að bera smá möndluáburð á hreinar hendurnar og svo þegar ég vakna eru þær silkimjúkar og dásamlegar!

EH

Handáburðinn fékk ég sendan sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit á vörunum.

Sýnikennsluvideo: fingramálning

AugnskuggarBourjoisEyelinerLúkkmakeupMakeup ArtistMakeup TipsMyndböndSýnikennsla

Kannist þið við það að vera að fara eitthvað fínt út eftir vinnu t.d. og svo þegar þið ætlið að fara að taka ykkur til þá munið þið allt í einu að þið gleymduð að taka með ykkur förðunarbursta – vá hvað ég hef oft lent í þessu, þetta er alltaf jafn pirrandi :)

Mér hefur hins vegar tekist oft rosalega vel upp með að búa til smoky förðun með púðurbursta – það er mjög fljótlegt. En stundum er ég bara ekki með hann og maður hleypur kannski ekki útí apótek og kaupir sér nýja förðunarbursta bara af því maður gleymdi sínum heima. Ég hef komist uppá lagið með það að venja mig bara líka á að nota fingurna – það er sérstaklega auðvelt þegar það leynist fallegur kremaugnskuggi í snyrtibuddunni. Mig langaði að kenna ykkur trixin mín þegar kemur að því að redda sér úr svona aðstæðum. Reyndar er líka voðalega fínt að nota bara fingurna þegar þið eruð með kremaugnskugga maður er eiginlega ekkert lengur að því heldur en með förðunarbursta.

En þá er einmitt komið að því að kynna nýjasta sýnikennsluvideoið til leiks en í því sýni ég ykkur hvernig þið náið þessari förðun með engum förðunarburstum!

bourjoisfingur4

bourjoisfingur

Hér fyrir ofan sjáið þið almennilega vörurnar sem ég notaði til að ná þessari augnförðun:

Color Edition 24H kremaugnskuggi í litnum Prune Nocturne nr. 05 – Color Edition 24H kremaugnskuggi í litnum Or Desir nr. 02 – Twist Up the Volume maskari – Mega Liner eyelinertúss – allt vörur frá Bourjois.

Ég er mjög skotin í þessum eyeliner en ég var voðalega klaufsk með hann fyrst þegar ég var að prófa hann. Hafði aldrei notað svona skásettan eyelinertúss og ég þurfti aðeins að venja mig á hann. Svo ég byrjaði á því að móta nokkrar línur á handabakinu til að sjá hvernig tækni ég þyrfti að nota – það er mjög sniðugt að gera með eyelinera sem þið eruð að prófa í fyrsta sinn því enginn er eins og maður þarf að venjast nýjungum :)

Á vörunum er ég svo með Color Boost varalitablýant frá Bourjois í litnum Plum Russian nr. 06 – sýni ykkur hann og fleiri varalitablýanta eftir helgi ;)

bourjoisfingur3

En með þessari sumarlegu sýnikennslu býð ég ykkur góða helgi***

EH

 

Dásamlegar brúðkaupsmyndir

BrúðkaupFallegtLífið Mitt

Ég lifi í draumaheimi þessa dagana þar sem mig dreymir stanslaust um komandi brúðkaup og ég reyni að hugsa uppá hlutum til að fullkomna planið fyrir stóra daginn. Ég rakst á þessar fallegu myndir sem Aldís mín Pálsdóttir tók ásamt Díönu Bjarnadóttur stílista þar sem brúðkaup leikur stórt hlutverk. Þetta eru alveg dásamlegar myndir frá henni Aldísi og ég fæ enn meiri fiðring í magann við að skoða þær þar sem hún ætlar einmitt að taka myndir í brúðkaupinu okkar – mér finnst ég svo heppin.

Mér finnst svo fallegt hvað íslensk náttúra leikur stórt hlutverk í myndatökunni sem var gerð fyrir ION hótel á Nesjavöllum. Skvísurnar notuðu að sjálfsögðu hótelið sem staðsetningu en líka staði þar í kring eins og Þingvallakirkju og auðvitað Þingvelli sjálfa. Ég er alveg harðákveðin í því eftir að ég sá þessar myndir að ef veður leyfir þá verða okkar myndir teknar undir berum himni. En þó veður leyfi það kannski ekki þá gæti það nú bara samt verið gaman – ég rak augun í regndropa á jakkafötum brúðgumans á einni mynd en það er ekki að sjá á fyrirsætunum að þeim líði illa :)10419651_10152467232124555_1935269784_n

Svo ég láti nú klæðnaðinn fylgja með þá er brúðguminn hér í fötum frá Herragarðinum – allt um brúðina aðeins neðar í færslunni.

Hér finnst mér brúðarförðunin alveg fullkomin – svona myndi ég vilja hafa mína, varirnar eru alveg fullkomnar!

10437259_10152467232599555_221178049_n 10470635_10152467232149555_2139440133_n 10346818_10152467232154555_990511511_n 10461854_10152467232144555_1804275954_n

Hér er herrann er í fötum frá Selected. Ég var einmitt að hugsa mikið um það um daginn í hverju Aðalsteinn ætti að vera á daginn okkar. Ekki það að hann hafi ekkert að segja um það – ég hef bara mest að segja um það. Einn hönnuður kemur þó sterkur þar inn að mínu mati :)

10449595_10152467232579555_816774547_n

Mér finnst þessi mynd alveg æðisleg – íslenska náttúran fær að njóta sín í botn og ást í aðalhlutverki.10461885_10152467232139555_98492253_n 10416702_10152467232594555_558374826_n

Mér finnst klæðnaður brúðarinnar ofboðslega fallegur en fötin hennar eru hönnun Andreu Magnúsdóttur. Blúndutoppurinn finnst mér sérstaklega fallegur. Inná brúðkaupsgrúppunni sem ég er í á Facebook er einmitt mikið rætt um hugmyndir að flíkum til að setja yfir sig án þess að þær skyggi á kjólinn – þessi toppur er alveg fullkominn!

Skartið finnst mér líka dáldið skemmtilegt það vekur forvitni mína – sérstaklega hálsmenið sem sést svo vel á myndinni hér fyrir ofan. En margt af skartinu var víst hannað sérstaklega fyrir þetta verkefni. Skartgripahönnuðurinn og myndhöggvarinn Hansína Jens hannaði það.

10439671_10152467232184555_1763048388_n 10416685_10152467232569555_1266217857_n

Ekki leiðinlegt að taka sig til fyrir stóra daginn á þessum stað – verst hvað staðsetningin á brúðkaupinu okkar er langt frá Nesjavöllum :)

10443821_10152467232204555_1358097316_n 10439714_10152467232194555_2075630238_n

 

Stílisti: Díana Bjarnadóttir
Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Guðbjörg Huldís
Hár: Katrín Sif
Fyrirsætur: Vera Hilmars og Henning Jónasson hjá Eskimo Models

Ó hvað ég hlakka til dagsins míns – ég er dauðöfundsjúk útí allar þær sem gifta sig fyrir stóra daginn minn sem má alveg fara að koma :)

EH

Annað dress: Kimono

Annað DressFashionÍslensk HönnunLífið MittNýtt í FataskápnumSS14

Þakklæti er mér efst í huga þessa stundina þegar ég fer yfir allar falleg kveðjurnar sem mér hafa verið sendar síðan ég skrifaði um fósturmissinn minn. Það er svo dásamlegt að finna fyrir svona stuðningi eins og þið hafið gefið mér með kveðjunum ykkar og lestrinum. Ég er ein af þeim sem finnst voða gott að tala upphátt um hluti sem mögulega aðrir eiga erfiðara með, stundum líður mér eins og bloggið og skrifin mín hér séu partur af einhvers konar sálfræðimeðferð en mér finnst ég alltaf geta opnað mig með hugsanir mínar hér og mig langar að þakka ykkur kærlega fyrir að gefa mér tækifæri á því og gefa mér styrk til að gera það. Síðan mín er með bestu, yndislegustu og frábærustu lesendur sem hægt er að hugsa sér – það finnst mér alla vega. Knús og takk til ykkar allra:***

Eins og gefur að skilja hafa síðustu dagar verið ótrúlega skrítnir – þeir eru eiginlega bara í smá móðu en ég er að reyna að komast í gegnum þá og taka bara einn dag í einu. Þegar maður verður líka fyrir svona áfalli þá er eins og maður sjái kannski lífið í öðru ljósi og kunni að meta mun betur það sem maður á. Ég hef reynt að eyða sem mestum tíma með strákunum mínum og í gær skelltum við Tinni okkur á kaffihús eftir að ég hafði sótt hann, drukkum epladjús og gæddum okkur á gómsætu matarkexi á meðan við biðum eftir pabbanum. Það eru þessar stundir sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér.

Mig langaði að sýna ykkur í leiðinni einn af nýju dýrgripunum í fataskápnum sem kær vinkona færði mér að gjöf um daginn. Ég finn það líka svo sterkt núna hvað það er mikilvægt að eiga gott fólk í kringum sig sem er til staðar fyrir mann og sem maður er sjálfur alltaf til staðar fyrir.

kimono4

Ég kolféll fyrir þessum fallega og sumarlega kimono á sýningunni hennar Andreu. Um leið og ég sá hann varð ég að eignast hann og Andrea var svo yndisleg að gefa mér hann fyrir alla hjálpina í kringum sýninguna. Ég efast um að það sé hægt að finna jafn yndislega konu og jafn duglega eins og Andrea er – hún á alla sína velgengni svo skilið og miklu meira en það. Hlakka til að fá að vinna með henni meira í framtíðinni og hlakka sérstaklega til næstu sýningar!

kimono

Dressið samanstendur af:

Kimono: SS14 eftir Andreu Magnúsdóttur úr AndreA Boutique
Buxur: Just Jude – VILA
Bolur: Vero Moda
Espadrillur: Selected
Myndir teknar á Canon EOS 100D

kimono3

Takk aftur fyrir ómetanlegan stuðning á þessum erfiðu tímum. Ég er að komast sjálf aftur almennilega í gang eftir bæði mitt áfall og veikindi í fjölskyldunni. Í gær tók ég upp þrjú sýnikennslumyndbönd fyrir síðuna og fullt af skemmtilegum förðunarlúkkum og myndum fyrir vöruumfjallanir fyrir nýjungar frá Dior, Chanel, Max Factor, YSL, Olay og svo lengi mætti telja.

Hlakka til að deila öllu með ykkur – knús til ykkar allra:***

EH

Stundum er lífið svo ósanngjarnt

Lífið Mitt

Þessa dagana sökkar lífið feitt – það er á dögum sem þessum sem mig langar að standa úti á stétt, öskra hátt og senda báðar löngutangirnar beint í andlitið á alheiminum því ég veit eiginlega ekki hvað í ósköpunum ég hef gert til að lenda í því að missa fóstur tvisvar á tveimur árum.

Mig langar að segja söguna mína sem í dag eru tvær af því ég upplifði það að þegar ég gekk í gegnum fyrsta fósturlátið fannst mér eins og ég væri gölluð því ég vissi ekki hvað það væri algengt að missa fóstur af því enginn talaði um það við mig. Mögulega geta mínar sögur hjálpað seinna meir, hjálpað þeim sem fara í gegnum það sama og ég hef gert. Ég óska þess þó innilega heitt að enginn þurfi að fara í gegnum sama sársauka og við fórum í gegnum nokkurn tíman aftur þó ég viti betur.

Ég finn að ég þarf líka að skrifa sögurnar fyrir mig sjálfa. Til að ná á ákveðinn hátt að takast á við það sem ég gekk í gegnum.

Í byrjun ársins 2012 kemst ég að því að ég er ófrísk. Ég get ekki líst því hvað mér brá mikið og ég tók algjört panikk kast. Þetta var ekki beint planað, við höfðum farið óvarlega og því hefði þetta kannski ekki átt að koma mér jafn mikið á óvart og það gerði. Ég tók mér nokkra daga til að jafna mig en svo fann ég spenninginn koma. Hann kom sérstaklega þegar ég sá hversu spenntur kærastinn var. Við fórum í fyrsta sinn í mæðraeftirlit og ég pantaði svo tíma í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni þegar ég átti að vera komin um 8 vikur. Daginn áður en ég fór í sónarinn komu blóðdropar. Þá hrundi veröldin og ég stífnaði öll upp. Það blæddi örlítið þennan dag og hætti svo alveg. Ég ráðfærði mig við ljósmóður uppá kvennadeild sem sagði að það væri engin ástæða til að hafa áhyggjur því það gæti alveg verið að þetta væri saklaust. En það sem gerist á meðgöngu er að æðarnar í leggöngunum verða viðkvæmari fyrir og þær geta sprungið sem leiðir til smá blæðingar. Ég ákvað að reyna að anda rólega þar sem ég átti tíma daginn eftir. Engu að síður var ég hvött til að taka því rólega og fá að fara í veikindaleyfi í vinnunni. Þar voru allir ekkert nema stuðningsríkir vegna aðstæðna og ég er enn svo þakklát fyrir skilninginn sem ég fékk. Í minningunni svaf ég ekki mikið nóttina fyrir snemmsónarinn. Þegar ég fór svo í snemmsónar hrundi heimurinn algjörlega – fóstrið sást inní fylgju með áfastan fæðupoka en enginn hjartsláttur.

Læknirinn sagði mér að hafa ekki of miklar áhyggjur mögulega væri ég bara komin styttra en ég héldi þar sem hjartslátturinn kemur ekki fram fyr en um 7/8 viku. Þetta er allt í frekar mikilli móðu hjá mér. Svo ég fékk nýjan tíma hjá lækninum viku seinna.

Svo smám saman kom meira og meira blóð. Aftur hrundi veröldin því ég vissi alveg hvað væri að gerast. Ég vissi að fóstrið væri að fara þó svo að allir í kringum mig reyndu að hughreysta mig. En vitiði maður veit alveg hvað er að gerast í sínum eigin líkama. Morguninn eftir vaknaði ég og það var blóð útum allt. Ég steig varlega upp, hugurinn fór á sjálfstýringu og stýrði mér inná bað. Ég settist á klósettið og ég fann hvernig fóstrið fór niður eftir leggöngunum mínum og lenti í klósettinu.

Ég man ég sat stjörf á klósettinu í langan tíma. Ég man hvað mér leið illa en á sama tíma var mér létt yfir því að vita að þetta væri búið. Að ég þyrfti ekki að vera að deyja úr áhyggjum hverja einustu mínútu á hverjum einasta degi. Svo stóð ég upp og virti fyrir mér þennan slímbolta sem blasti fyrir mér í klósettinu. Þarna var fóstrið okkar sem átti að gera lífið ennþá betra en það var. Ég veit ekki hvaðan styrkurinn til að sturta niður kom – en það var það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Ég labbaði varlega inní herbergi og sagði kærastanum mínum hvað hafði gerst. Ég sagði honum að fóstrið væri farið. Sársaukinn leyndi sér ekki og þó svo að mér hafi aldrei liðið verr á ævinni þá held ég að honum hafi liðið verr en mér. Við grétum saman og svo hringdi ég niður á spítala til að fá tíma í skoðun til að athuga hvort ég þyrfti að fara í skröpun ef allt hefði ekki skilað sér niður.

Daginn eftir fór ég í skoðun. Yndislegur læknir tók á móti okkur ásamt læknanema. Þau staðfestu fósturmissinn og að allt væri í lagi að allt hefði skilað sér út. Við fengum bækling þar sem farið var yfir upplýsingar um fósturlát, hvar er hægt að sækja sér aðstoð og upplýsinga um hvað hafði gerst. Eftir á sé ég smá eftir því að hafa ekki þegið þá aðstoð bara fyrir mig andlega. En ég vissi þó að líklega hefði bara eitthvað verið að. Fóstrið var ekki fullkomið og líkaminn hafnar því sem er ekki fullkomið. Þannig sá ég þetta alla vega fyrir mér.

Í framhaldi sáum við að við vorum tilbúin fyrir þetta allt saman og ákváðum að fara að reyna. Ljósmóðirin mín sem var með mig í mæðraeftirlitinu sagði okkur að það væri ekkert sem bannaði að byrja að reyna strax. Fyrst læknirinn hafði sagt að allt hefði hreinsast út þá væri ekkert sem segði til um að það myndi ekki vera í lagi. Viti menn tveimur vikum seinna þegar ég var með egglos tókst það.

Ég komst að því mjög snemma að ég væri ólétt. Ég fann fyrir öllum einkennunum aftur en þau fóru eiginlega um leið og það byrjaði að blæða fyrst. Ég tók próf sem reyndist jákvætt en línan var svo ósýnileg að ég ákvað að taka annað daginn eftir sem var alveg eins. Við ákváðum að vera pollróleg, panta tíma í snemmsónar og sjá hvað myndi gerast. Ég hafði líka lesið mér til um að það er mögulegt að fá jákvætt óléttupróf í alltað 8 vikur eftir fósturmissi.

Aftur svaf ég ekkert daginn fyrir snemmsónarinn. Enginn vissi af þessu en við ákváðum að fá fyrst staðfestinguna á grunsemdum okkar. Ég man ég horfði stíft á skjáinn hjá lækninum og strax sá ég litla doppu á skjánum og læknirinn benti okkur síðan á hjartsláttinn. Þarna var lífið fullkomið. Við fengum mynd fórum beint útí búð og keyptum ramma utan um myndina af litla bumbubúanum. Ég hringdi í heilsugæsluna og skildi eftir skilaboð til ljósmóðurinnar minnar sem hringdi tveimur mínútum síðar og trylltist af spenningi þegar ég sagði henni fréttirnar. Hún sagði mér að þetta væru einmitt fréttirnar sem hún vonaðist eftir að fá þegar hún sá að ég hafði hringt í hana. Við fengum þá tíma hjá henni til að fá beiðni í 12 vikna sónar.

Í dag á ég fullkomlega heilbrigt barn sem ég elska meira en allt annað og hann fullkomnar mig. Hann er það sem sannaði það fyrir mér að ég get eignast fullkomið barn þó mér hafi liði eins og ég væri mjög ófullkomin þegar ég missti fóstrið. Eins erfitt og það er að hugsa þannig þá veit ég að ef ég hefði ekki misst þetta fóstur þá hefði ég aldrei eignast Tinna Snæ og ég ætla aldrei að upplifa það að lifa án yndislega sonar míns.

Í dag veit ég að það að missa fóstur er ótrúlega algengt en það hjálpaði mér ekki um helgina. Í dag er ég aftur ófullkomin og í dag er það líka mér að kenna að heimurinn hrundi aftur. Í dag er ég þó svo þakklát fyrir það að eiga besta son í heimi sem ég elska útaf lífinu og hann hjálpar mér svo mikið í dag að halda geðheilsunni. Í dag veit ég hvað ég er heppin að eiga barn því ég veit að það er alls ekki sjálfsagður hlutur. Á sunnudaginn missti ég fóstur í annað skiptið.

Á laugardagin dreymdi mig um það að eiga tvö börn, að vera tveggja barna móðir. Ég var farin að skipuleggja það í huganum á mér hvernig systkinin eða bræðurnir gætu fylgt mér til pabba þeirra á brúðkaupsdaginn okkar. Hvernig ég var farin að skipuleggja það að flytja í stærri íbúð þar sem börnin tvö gætu deilt herbergi eða fengið sitthvort. Ég sem var samt svo viðbúin því að missa fóstrið og ég er líka svo fúl útí sjálfa mig fyrir að hafa verið svona viðbúin mér finnst ég hafa skemmt fyrir sjálfri mér með því að búast við þessu.

Við fjölskyldan áttum yndislegan dag á laugardaginn, hann var fullkominn og ég fann hvað áhyggjurnar um plássleysi í íbúð eða peningamissi hurfu og hvað tilhlökkunin var að yfirtaka allt annað. Mig verkjaði í brjóstunum, mér var óglatt og mjaðmirnar voru að fara með mig – allt passaði og mér reiknast til að ég hafi verið komin nokkrar vikur 6-7 líklega. Svo vakna ég á sunnudaginn, fer fram á baðherbergi til að pissa og þá kom blóð. Daginn eftir var ég tóm.

Við höfum tvisvar misst fóstur bara nokkurra vikna gömul. Það er hræðilegt og ég get ekki ímyndað mér hvernig er að missa þegar fóstrin eru orðin eldri en það. Konur sem ganga í gegnum þá hræðilegu reynslu finnst mér sterkustu konur í heimi – að geta komist í gegnum það.

Að missa fóstur er því miður mjög algent og mig minnir að tölfræðin segi að í 10 kvenna saumaklúbbi hafi að minnsta kosti 3 konur misst fóstur alla vega einu sinni. Það sem ég veit þó er að við sem höfum lent í þessu getum hjálpað hvor annarri í gegnum þetta. Þetta er ömurlegt og svo ósanngjarnt en ég og mín saga er dæmi um að það að missa fóstur þýði ekki að það sé útilokað að eignast heilbrigt barn og það strax í næsta egglosi. En við erum allar  ólíkar og engin okkar er eins. Við sem höfum gengið í gegnum þetta upplifum þetta á okkar hátt. Þetta eru bara mínar sögur og mín reynsla.

Á margan hátt þarf ég líka að skrifa söguna mína niður til að minna sjálfa mig á það að þó svo ég hafi upplifað þennan missi fyrir tveimur árum og aftur nú fyrir stuttu þá á ég einn fullkominn son sem fullkomnar mig. Ég skrifa söguna til að minna mig á að þó svo sorgin hafi tekið yfir líf mitt þá var hamingjan handan við hornið.

Ég skrifa líka söguna til að minna sjálfa mig á að lífið er erfitt og við tökumst á við fullt af hlutum, bæði jákvæða og neikvæða sem móta okkur sem einstaklinga og ég vil trúa því að margt af því geri okkur að betri manneskjum. Í dag veit ég að ég mun aldrei taka því sem sjálfsögðum hlut að eiga fullkomlega heilbrigt barn. Ég veit að það er mikið kraftaverk að verða ólétt og eignast barn. Ég veit að þó að mér líði eins og heimurinn minn hafi hrunið þá fæ ég fleiri tækifæri í framtíðinni til að verða ólétt.

Við erum margar sem höfum upplifað sömu sorgina og uppgjöfina. Ég man að þegar ég gekk í gegnum þetta fyrst þá upplifði ég mig mjög einmanna, ófullkomna og misheppnaða. Ég hélt ég væri ein sem væri gölluð en ég komst að því að svo er ekki. Að lokum þá skrifa ég líka söguna mína og birti hana hér til að láta aðrar konur sem hafa gengið í gegnum það sama og ég vita að þær eru ekki einar eins og mér leið og til að láta þær vita að ég er hér til staðar fyrir þær ef þær þurfa einhvern til að tala við.

b0cb356b22b302ab0466cd675c92f71eMeð kærri kveðju, þökkum fyrir stuðning sem margir hafa nú þegar sýnt mér og með von um góðar móttökur.

EH

Ekki missa af þessum

Ég Mæli MeðFallegtFyrir HeimiliðLífið MittNetverslanirShopSnyrtivörur

Á næsta laugardag ætla nokkrar af mínum uppáhalds vefverslunum að taka höndum saman og vera með POP UP markað á KEX Hostel. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessum markaði því ég hef legið yfir verslununum, verslað smá og er nú spennt að fá að sjá vörurnar með eigin augum áður en ég versla þær.

HÉR getið þið séð allt um viðburðinn en hér fyrir neðan er líka smá samantekt á verslununum sem verða á staðnum og hvað er í boði hjá þeim.

Snúran.is – HÉR

Hér er á ferðinni vefverlun sem býður uppá ótrúlega fallega hönnunarmuni fyrir heimilið. Ég er svo hrifin af marmarabakkanum og ljósinu sem er með kopargrindinni held að þetta séu munir sem myndu fullkomna heimilið mitt :)

Nola.is – HÉR

Hér er á ferðinni vefverslun sem ég skrifa mikið um en þar eru tvö af bestu húðvörumerkjunum fáanleg – Skyn Iceland og Embroylisse. Þaðan eru líka skemmtilegu naglalökkin sem breyta um lit og sniðugar hjálparvörur til að fullkomna förðunina ;)

Petit.is – HÉR

Hér eru ein fallegustu barnafötin fáanleg frá merkinu Farg og Form. Ég keypti skýjahúfu og buxur á Tinna Snæ fyrir nokkru síðan – það er einmitt ein mynd af honum í dressinu þarna. Þetta eru föt sem fara svo vel í þvotti, eru alltaf falleg, þæginleg fyrir hann að djöflast í og mér finnst eins og buxurnar stækki með honum. Ég hlakka til að skoða aðrar vörur frá versluninni á markaðnum:)

Esja Dekor - HÉR

Hér er á ferðinni vefverslun með fullt af fallegum munum fyrir heimilið. Ég er ótrúlega hrifin af myndunum eins og þessari af lundanum sem ég hef skrifað um áður og svo finnst mér vörurnar frá Miss Etoile alveg æðislegar!

Andarunginn – HÉR

Er verslun með vörur fyrir börn og merkið sem er mest áberandi heitir 3 Sprouts og býður meðal annars uppá ótrúlega fallegar heimilisvörur fyrir börn. Ég sýndi ykkur einmitt eina af dótakörfunum hans Tinna sem er frá Andarunganum. Ótrúlega fallegir hlutir og ég hlakka til að kaupa fleiri hirslur þegar hann fær sitt eigið herbergi einhver tíman :)

Laugardagurinn hjá mér er að verða þétt skipaður en ég ætla mér samt að mæta á markaðinn. Held að fullkomin byrjun á deginum væri sundferð, fara svo í bæinn í brunch og loks á Pop Up – sjáumst þar!

EH

CC kremin frá Biotherm

BiothermCC KremÉg Mæli MeðHúðmakeupMakeup TipsNýjungar í Makeup-iNýtt í Snyrtibuddunni

Ég er ekki enn búin að komast yfir öll CC kremin sem er nú komin í sölu á Íslandi en þegar það tekst þá lofa ég topp 10 lista frá mér yfir bestu kremin eins og ég gerði með BB kremin um daginn.

En núna langar mig að kynna ykkur fyrir tveimur nýjum CC kremum sem voru að koma frá merkinu Biotherm. Það er kannski sjaldgæft að merki séu með tvö mjög ólík CC krem í sölu hjá sér sem koma út á svipuðum tíma en það er einmitt það sem þeir hjá Biotherm ákváðu að geraþ Það er meirað segja líka til BB krem hjá þeim, þeir slepptu því ekki heldur (það er líka mjög gott krem). En þetta eru mjög ólík krem og mig langar að segja ykkur aðeins frá þeim því annað þeirra hentar sérstaklega vel í sól til að kæla húðina..

Screen Shot 2014-06-10 at 3.15.22 PM

Hér sjáið þið Skin Best CC kremið og Aquasource CC gelið frá Biotherm.Hér fáið þið nokkrar staðreyndir um kremin tvö:

Skin Best CC krem:
Vörurnar í Skin Best línunni henta þeim aldri sem er að finna fyrir einkennum öldrunar í fyrsta sinn. Vörurnar vinna við að byggja upp húðina og styrkja hana og vinna þannig gegn öldrunareinkennum. Vörurnar eru ríkar af andoxunarefnum sem vernda húðina og berjast gegn sinduefnum. CC kremið er rosalega þétt í sér og leitast við að fríska uppá þreytta húð. Það er mjög þykkt miðað við mörg önnur CC krem og kemur því alveg í staðin fyrir farða að mínu mati. Kremið inniheldur SPF 25 og er því flott fyrir sumarið.

Aquasource CC gel:
Hér er á ferðinni fyrsta CC gelið svo ég viti til – virkilega skemmtileg vara. Ef þið þekkið eitthvað Aquasource vörurnar frá Biotherm þá eru þetta kælandi snyrtivörur sem fríska vel uppá húðina, þær eru fullkomnar fyrir húðina á sumrin eftir að hún hefur verið útí sól og þarf á smá kælingu að halda. Gelið kemur litlaust úr túbunni en þegar þið hitið kremið með því að nudda því á milli fingranna þá springa út steinefna litarefni sem fá á sig léttan lit og aðlagast að litarhafti hverrar konu. Það eru til tveir litir og þið veljið þann sem hentar ykkur betur. Ég er með ljósari litinn og hann aðlagast svo sannarlega mínu litarhafti. Hér er á ferðinni vara sem gefur rosalega góðan raka og margar gætu notað án þess að nota sérstakt rakakrem undir. Þetta er varan fyrir ykkur sem viljið hafa lítið sem ekkert á húðinni og þessi er fullkomin til að bera á húðina að kvöldi fallegs sumardags þegar húðin er heit eftir sólina og þarfnast kælingar þá fær hún smá slökun og um leið fallegan lit.

ccbiotherm3

Hér sjáið þið betur hvernig kremin eru þegar þau koma útúr túbunni og hvernig þau blandast svo saman við húðina þegar það er dreift úr þeim.

Skin best kremið er mjög þétt gefur því mikla þekju, þið sjáið það ótrúlega vel á þessari mynd. Þetta magn nær alveg að þekja allt andlitið það gerði það alla vega hjá mér.

Svo er það Aquasource gelið sem gefur ótrúlega léttan lit og gefur húðinni mun frísklegri ásýnd. Eini ókosturinn við það er að af því liturunn er mjög léttur er ekki auðvelt að sjá hann nema þið séuð með ofurlýsingu inná baði. Ég þarf t.d. alltaf að fara fram í stofu og horfa á mig í spegli fyrir framan góða dagsbirtu til að laga áferð litsins svo ég sé ekki blettótt. En þeir hjá Biotherm ráðleggja að kreminu sé nuddað vel saman í lófunum áður en það er borið á húðina svo liturinn sé kominn nokkuð vel í ljós áður en kremið er borið á húðina. Þrátt fyrir þetta „vesen“ er ég hrifnari af þessu kremi heldur en hinu þar sem þetta er nýtt fyrir mér. Ég hef notað þetta krem rosalega mikið síðustu daga en ég er hrifnari af léttari þekju og hafa þá kost á að setja bara léttan farða yfir þetta gel ef ég þarf.

Krem sem vert er að kíkja á næst þegar ykkur vantar lituð létt krem;)

EH

Ég fékk sent sýnishorn af kremunum frá Biotherm. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit á vörunum.