Andrea Röfn

OUTFIT

OUTFITSVÍÞJÓÐ

Bæjarrölt með betri helmingnum í vikunni. Ég var að sjálfsögðu allt of illa klædd, kuldinn í Malmö er ennþá svakalegur og ég viðurkenni alveg fúslega að gríska hitans er saknað. Ekki misskilja samt, við elskum Malmö og okkur líður svo vel þar. Get hreinlega ekki beðið eftir að sjá borgina í vor- og sumarbúningnum og kynnast henni betur.

Loðjakki: Armani Exchange
Suede jakki: AllSaints
Skyrta: ZARA
Buxur: Levi’s
Skór: Alexander McQueen

Annars er ég komin til Íslands og verð hér í tæplega tvær vikur. Ég ætlaði að koma á mánudaginn en þar sem Denise besta vinkona mín er á landinu yfir helgina, en hún býr í Hong Kong, ákvað ég að fljúga í gær og koma henni á óvart. Get ekki lýst því hvað það var gott að knúsa hana en við sáumst síðast í klukkutíma á nýársdag og það var í fyrsta skipti síðan í júlí síðasta sumar.

Eigið góða helgi

Andrea Röfn

LOKSINS HEIMA

HEIMAPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Við erum loksins flutt inn! Fyrir rúmri viku fengum við afhenta lykla að íbúðinni okkar hérna í Malmö. Samstundis mætti flutningabíll með allt dótið okkar og stuttu seinna mamma og pabbi sem bókuðu flug um leið og þau vissu hvenær við fengjum afhent. Þau hjálpuðu okkur líka að flytja inn í Grikklandi og vá, hvað það er gott að eiga góða að sem eru tilbúnir til að taka sér tíma í svona stúss. Með hjálp þeirra vorum við búin að koma okkur almennilega fyrir á einum sólarhring, allt komið upp úr kössum og á sinn stað a nýja heimilinu.

Síðasta hótelnóttin

Íbúðin okkar er bjart loft á efstu hæð í 5 hæða húsi. Við mættum á opið hús einn sunnudag í janúar og urðum strax ástfangin af henni. Það voru um það bil 30 aðrir að skoða hana og áhuginn greinilega mikill. Daginn eftir var aftur opið hús og þá sáum við íbúðina að kvöldi til. Það ýtti enn frekar undir aðdáun okkar á henni og seinna sömu viku var hún orðin okkar. Við tók heldur löng bið en hún gleymist um leið og maður hefur komið sér fyrir og er kominn aftur í heimilisrútínu.

Þó ég segi að við séum búin að koma okkur almennilega fyrir vantar ennþá ýmislegt, en góðir hlutir gerast hægt. Stærsta verkefnið verður eflaust að koma öllum skónum okkar fyrir. Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað pabbi taldi mörg skópör þegar við tókum upp úr kössunum.. jú kannski þegar ég sýni ykkur skógeymsluna og hvernig við leysum hana.

Að lokum má ég til með að segja ykkur frá einu allra mesta stússi sem ég hef nokkurn tímann vitað um. Við Arnór pökkuðum íbúðinni okkar í Aþenu niður í lok nóvember/byrjun desember og svo fórum við til London, og Íslands, ég til Suður Afríku, Arnór til Indónesíu og Florida og svo enduðum við saman hérna í Svíþjóð. Á meðan beið allt dótið í íbúðinni í Grikklandi. Í janúar flugu svo pabbi Arnórs og Biggi vinur hans til Munchen þar sem þeir sóttu sendiferðabíl og keyrðu alla leið niður til Ítalíu. Þaðan tóku þeir ferju í sólarhring yfir til Grikklands, keyrðu til Aþenu og sóttu allt dótið og lögðu svo af stað sömu leið til baka. Nema þeir keyrðu enn lengra, til Rostock í Þýskalandi, fóru í þriðju ferjuferðina sína til Trelleborg, sem er rétt fyrir utan Malmö. Þeir enduðu svo á því að vera hérna í Malmö í tvo daga áður en þeir skiluðu bílnum í Kiel í Þýskalandi (ennþá meiri akstur) og flugu svo loksins heim til Íslands. Ég veit ekki um meiri hetjur, að nenna öllum þessum akstri, nánar tiltekið 8 dögum á hraðbrautum og í ferjum, bara til að hjálpa okkur!

Alls kyns myndir frá síðustu dögum..

Heima er best og hérna líður okkur vel <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram – @andrearofn

 

#HUGUÐ

STUDIO HOLTUMFJÖLLUN

Í vikunni fór af stað herferðin #Huguð, á vegum Hugrúnar geðfræðslufélags. Í #Huguð deila sjö einstaklingar sínum upplifunum af ólíkum geðsjúkdómum og geðröskunum. Þannig er athygli vakin á geðheilbrigði, fjölbreytileika geðsjúkdóma og þeim úrræðum sem standa til boða. Frásagnir þessa einstaklinga hafa hrifið mig og aðra gríðarlega mikið, og tekst þeim öllum að útskýra upplifanir sínar á mannamáli.

Viðmælendurnir hafa allir mismunandi reynslu af geðsjúkdómum og geðröskunum, þ.á.m. geðhvarfasýki, átröskun, þunglyndi, kvíða, áráttu- og þráhyggjuröskun, fíknisjúkdóma og geðklofa. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa leitað sér hjálpar, vera komin í skilning við sig sjálf, geta sagt hreint og opinskátt frá, ásamt því að hvetja aðra til að leita sér hjálpar.

Á vefsíðu Hugrúnar má lesa viðtöl við einstaklingana sjö og þeim fylgja stutt myndbönd sem framleidd eru af Studio Holt og leikstýrt af Álfheiði Mörtu Kjartansdóttur. Ég mæli hiklaust með þessum lestri og að þið horfið á myndböndin, #Huguð er mögnuð herferð.

Aron MárVala KristínHrefna Huld   Ragnar IðunnTryggviSonja Björg 

Verum #HUGUÐ

Andrea Röfn

 instagram – @andrearofn

NEW IN: ACNE STUDIOS

NEW INSVÍÞJÓÐ

Þau ykkar sem fylgið mér á Instagram hafið eflaust tekið eftir treflinum sem ég tek ekki af mér þessa dagana. Trefillinn er frá Acne Studios en ég hafði haft augastað á honum í nokkrar vikur áður en hann varð loksins minn. Hann er svo stór og góður, nánast eins og teppi, úr 80% ull og hlýjar svo vel í sænska kuldanum, sem hefur verið ótrúlegur síðustu daga og vikur. Einhvers konar Síberíukuldi og rakinn svakalegur. Trefillinn fæst til dæmis hér.

Annars er allt að gerast hérna í nýja landinu. Erum loksins flutt inn í íbúðina okkar og búin að koma okkur vel fyrir. Eigum mömmu og pabba mikið að þakka í þeim málum þar sem þau komu og hjálpuðu okkur að flytja inn! Hlakka til að segja ykkur meira og sýna ykkur myndir.

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram – @andrearofn

SEPAI Í MADISON ILMHÚS

SNYRTIVÖRUR

              Færslan er unnin í samstarfi við Madison Ilmhús

Þegar ég var síðast á Íslandi fékk ég skemmtilegt boð frá Madison Ilmhúsi. Ég hef verið hrifin af Madison síðan það opnaði árið 2013, en mamma kynnti mig fyrir versluninni og er einn helsti aðdáandi hennar. Madison er sérverslun með gæðailmvötn og aðrar vörur líkt og sápur og kerti, allt frá sjálfstæðum ilmframleiðendum. Þar er einnig að finna snyrtivörur, húðumhirðu- og förðunarvörur, allt frá gæðamerkjum þar sem hver og einn framleiðandi lítur á vinnuna sína sem listgrein.

Meðal vörumerkjanna í Madison er spænska húðvörumerkið SEPAI. Paola Gugliotta stofnandi Sepai var stödd á Íslandi á dögunum og ég hitti á hana í Madison þar sem hún útskýrði fyrir mér helstu einkenni merkisins og varanna, nauðsynjar húðumhirðu og margt fleira. Að lokum fékk ég ótrúlega góða andlitsmeðferð á snyrtistofunni, sem staðsett er inn af versluninni.

Hugsunin á bakvið Sepai vörurnar er að sameina tæknilega og náttúrulega hugmyndafræði í vörur sem hafa það besta að bjóða af hvoru um sig. Vörunum er ætlað að hafa jafn góða virkni og vísindalega þróaðar vörur en vera jafn hreinar, jafnvel hreinni, en þær náttúrulegu. Paola leggur einnig áherslu á að vörurnar hafi áhrif á húðina til langs tíma og að árangurs sé ekki endilega að vænta á stundinni eða á morgun, heldur taki lengri tíma að sjá hann. Í kjölfarið er árangrinum svo ætlað að endast enn lengur. Vörurnar frá Sepai eru bæði standard vörur en einnig er hægt að sérútbúa vörur eftir þörfum hvers og eins með því að blanda mismunandi virkum efnum út í vörurnar. Val á rétt­um virk­um efn­um í húðvör­ur eru lyk­il­atriði til að ná góðum ár­angri í húðum­hirðu.

Til viðbótar við sínar hefðbundnu vörur hefur Sepai einnig þróað Gen-Decode, sem gengur út á að þróa og blanda hinar fullkomnu vörur fyrir hvern og einn notanda. Það er gert með DNA prófi og niðurstöður þess, sem eru nákvæmar upplýsingar um húðina og orsakir öldrunar hennar, eru notaðar til að blanda þau efni sem þarf í réttum hlutföllum.

Allar vörurnar eru þróaðar og framleiddar rétt fyrir utan Barcelona á Spáni, en þar er aragrúi af húðrannsóknum og vörumerkjum sem fæstir vita af, að sögn Paolu. Henni þótti því mikilvægt, við stofnun Sepai, að stofna merki sem ætlað var til sölu um allan heim. Ólíkt flestum merkjunum frá sama svæði er Sepai fáanlegt í fjölmörgum löndum og á lúxus hótelum á borð við Ritz Carlton.

Andlitsdekrið var algjört draumatrít eftir mikla dagskrá á Íslandi. Í dekrinu voru aðeins notaðar vörur frá Sepai og fékk ég yfirborðshreinsun, djúphreinsun með kornamaska og gufu, andlits- axla og höfuðnudd, maska og að lokum krem. Þarna lá ég og naut mín í rúman klukkutíma og sofnaði í endann. Eitt af því sem Paola nefndi sem mér þótti mjög merkilegt er að vöðvana í andlitinu þarf að virkja og æfa, líkt og við förum í líkamsrækt og borðum vel. Þetta er að eitthvað sem ég hef ekki hugsað um hingað til en virkar svo rökrétt um leið og maður heyrir það. Kannski er ég ein um að hafa ekki pælt í þessu fyrr en núna, hver veit.

Ég mæli hiklaust með Sepai andlitsdekrinu og vörunum, en ég finn ennþá 10 dögum síðar hvað meðferðin hafði góð áhrif á húðina mína. Svo verð ég að mæla með gjafabréfunum í Madison, en ég gef mömmu yfirleitt slíkt þegar hún á afmæli eða um jólin og það vekur ávallt lukku. Hægt er að nota gjafabréfin bæði í vörur úr versluninni eða í trít á snyrtistofunni.

Takk kærlega fyrir mig Madison.

Andrea Röfn

Endilega fylgdu mér á instagram undir @andrearofn

SPA TIME

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGTSVÍÞJÓÐ

Í síðustu viku keyrðum við Arnór upp strandlengjuna frá Malmö og til Tylösand, sem er rétt fyrir utan Halmstad. Við keyrðum beint eftir æfingu hjá honum og svo átti hann frí daginn eftir, þannig við ákváðum að fara í smá roadtrip. Smá „getaway“.. hvert er annars íslenska orðið? Við búum ennþá á hóteli, mjög fínu og góðu hóteli í miðborg Malmö. Já og ennþá í ferðatösku, síðan í lok nóvember. Þolinmæðin hefur alveg verið meiri, ég viðurkenni það, en það styttist óðum í að við fáum íbúðina okkar afhenta. Við höfum það alls ekki slæmt, ekki misskilja, það verður bara svo gott að vera heima hjá sér og komast í rútínu.

Þetta litla getaway endurnærði okkur mikið.  Við bókuðum Hotel Tylösand, sem er spa hótel í ótrúlega fallegu og notalegu umhverfi. Þar nutum við okkar, borðuðum góðan mat og eyddum tíma í spa. Hótelið er svo þekkt fyrir stórt safn af listaverkum sem mér þótti mjög gaman að skoða og gæddi umhverfið skemmtilegu lífi. Ég væri svo alveg til í að fara aftur þegar það fer að vora og í sumar, umhverfið er fallegt núna og ég get rétt ímyndað mér hvað það er fallegt á sumrin.

Svo fáum við íbúðina okkar síðar í þessari viku og getum ekki beðið!

Eigið yndislega viku

Andrea Röfn

 

ÚTSKRIFTIN MÍN

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGT

Síðasta laugardag útskrifaðist ég sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Loksins fékk ég skírteinið í hendurnar! Síðustu þrjú og hálft ár hafa verið afar viðburðarík, krefjandi en fyrst og fremst skemmtileg. Það er svo gaman að setja sér markmið, vinna að þeim og vita að ef maður vandar sig og gefur sér tíma mun maður uppskera á endanum.

Á tímanum mínum í HR fór ég í skiptinám til Rotterdam og tók svo þátt í mótun og opnun Húrra Reykjavík women, ásamt því að vera þar í fullri vinnu. Á því tímabili hefur aldrei verið jafn mikið að gera hjá mér en á sama tíma gekk mér áberandi best í skólanum. Svo kynntist ég Arnóri og var mikið erlendis með tilheyrandi fjarveru frá skólanum, hópverkefnum og einstaka prófum sem ég þurfti hreinlega að sleppa. Mér gekk ótrúlega vel í fögunum sem mér þótti skemmtileg og ekki jafn vel í þeim sem mér fannst ekki nógu skemmtileg. Heilt yfir er ég óendanlega ánægð og þakklát fyrir námið sem er á enda og reynsluna og vitneskjuna sem ég öðlaðist á þessum tíma. Ég lærði svo mikið á sjálfa mig og ögraði mér eins og ég gat. Ánægðust er ég með vinkonurnar og vinina sem ég eignaðist, sem eru svo sannarlega komin til að vera í mínu lífi.

Ég hélt veislu eftir athöfnina og skipti henni í tvennt. Fyrst komu fjölskyldumeðlimir og -vinir og síðar um kvöldið komu vinirnir. Á boðstólnum var ýmislegt matarkyns og nóg af fljótandi veigum frá Ölgerðinni. Mér finnst mikilvægt að allir geti fengið eitthvað sem þeim líkar við þegar ég held party eða veislu og passaði því upp á, í samvinnu við Ölgerðina, að úrvalið væri gott. Egils Gull, Egils Lite og Tuborg Classic voru á boðstólnum fyrir bjórþyrsta, Piccini Prosecco freyðivínið sló í gegn og Barone Montalto Pinot Grigio hvítvínið einnig. Fyrir þá rólegri var svo ískaldur Egils Kristall sem klikkar aldrei!

Það gerði daginn minn að hafa fjölskylduna og Arnór mér við hlið. Hann átti akkurat fríhelgi og gat skotist heim og fagnað með mér. Svo er ég ótrúlega hamingjusöm að hafa fengið allt fólkið mitt í veislu, geta skálað við þau og fagnað áfanganum með þeim. Svo kom Jónas Óli bróðir minn mér á óvart um kvöldið þegar Jón Jónsson mætti á svæðið með gítarinn. Hann reif stemninguna upp á næsta level og skildi okkur svo eftir í algjörum partygír! Vá hvað það er gaman að útskrifast! 

Myndir frá kvöldinu eru af skornum skammti, það voru allir uppteknir af því að skemmta sér :-)

Dragtin mín er frá Tiger of Sweden. Ég mátaði hana svona 6 sinnum til að vera alveg viss um að hún væri rétt fyrir tilefnið. Skórnir eru Louis Vuitton og þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það var þægilegt að útskrifast í sneakers og vera svo í þeim restina af deginum og kvöldinu!

Andrea Röfn              

WHEN IN STOCKHOLM

SHOPSVÍÞJÓÐTRAVEL

Ég skrapp til Stokkhólms í vikunni að hitta mömmu mína. Hún var þar vegna fundar, en hún ferðast mikið til Norðurlandanna í vinnunni, sem ég er svo sannarlega að fara að njóta góðs af eftir að ég flutti til Malmö. Nú getum við hist miklu oftar og átt gæðastundir saman. Þessi stutta Stokkhólmsheimsókn fór aðallega í leit að útskriftardressi, en það er minna en vika í útskriftina mína og því ekki seinna vænna að ákveða hverju ég ætla að klæðast. Ég fór í fjölmargar búðir en fann aðallega flíkur sem mig langaði að eignast til að klæðast dags daglega, sem sagt eitthvað minna af spennandi útskriftarfötum. Leitin endaði svo með því að ég keypti ekki neitt í Stokkhólmi heldur keypti ég dragt í Malmö sem ég hafði þegar mátað þrisvar sinnum og alltaf haft í huga sem útskriftardress. Ég er fáránlega ánægð með hana og hlakka til að klæðast henni á laugardaginn.


Berns Asiatiska – ómæ hvað hann var góður. Sandra snillingur sendi mér nokkra staði sem hún mældi með og Berns fær algjöra toppeinkunn. Acne trefill sem ég er með á heilanum og ætla að kaupa mér um leið og ég kem aftur út. Rodebjer kápa – hér.Ég hef átt eina leopard mynstraða flík yfir ævina og alltaf átt smá erfitt með þetta print. Þessi kemst samt næst því að vera eitthvað sem ég gæti mögulega fílað. Ganni – hér.
Perfect litur – Acne Studios hér.Sandro Paris – hér.Gervipels frá Rodebjer, var á útsölu og núna er ég lítil í mér að hafa ekki keypt mér hann, haha. Mér sýnist vera nokkrir eftir, hér.

Við gistum á hóteli sem heitir At Six. Það er nýtt og ótrúlega fallegt hótel á besta stað í bænum. Hótelið fær mín bestu meðmæli ef þið eruð að spá í að skella ykkur til Stokkhólms á næstunni.

Svo heppin að fá að kalla þessa ofurkonu mömmu mína.

Hlakka til næstu Stokkhólmsheimsóknar!

Andrea Röfn

DRAUMA JAKKINN MINN

HÚRRA REYKJAVÍKOUTFIT

Ég er komin til Malmö og hafa síðustu dagar aðallega farið í húsnæðisleit og að koma okkur inn í hluti sem skipta máli þegar maður flytur til nýs lands. Í gærmorgun stökk ég yfir til Köben og hitti Hebuna mína sem býr þar og er í mastersnámi við Copenhagen Business School. Allt of langt síðan við áttum gæðastund saman og því mikið að tala um. Við fengum okkur morgunmat á Mad og Kaffe í Vesterbro sem er alltaf jafn góður, en á sama tíma svo vinsæll staður að maður nennir alls ekki alltaf að bíða eftir borði. En þessi morgunn var sem betur fer ekki of busy og við létum okkur hafa smá bið.

Þessi drauma drauma drauma jakki er frá Norse Projects. Ég hef sjaldan ef einhvern tímann verið jafn ástfangin af einni flík. Hann er úr Húrra Reykjavík og er á 50% afslætti núna!
Skórnir eru frá Filling Pieces, hollensku merki sem ég held svo ótrúlega mikið upp á. Buxurnar eru frá Norse Projects. Bæði skórnir og buxurnar eru líkt og jakkinn á 50% afslætti í Húrra.

Andrea Röfn

TÍMAMÓT

ANDREA RÖFNPERSÓNULEGT

Gleðilegt ár!

Árið mitt byrjar vel og rólega, ég er smám saman að koma mér í rútínu eftir jólin og ferðalögin sem fylgdu þeim. Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem ég er ekki að gíra mig í skóla á þessum tíma árs, en ég kláraði viðskiptafræðina í nóvember og bíð spennt eftir útskriftinni sem er í febrúar. En að koma sér í rútínu er ekkert sjálfsagður hlutur fyrir mig þessa dagana og hefur ekki verið það í smá tíma. Við erum búin að pakka niður íbúðinni í Grikklandi og næsti áfangastaður er Malmö, Svíþjóð, þar sem Arnór er búinn að skrifa undir samning til næstu ára. Þar byrjum við á hótel lífi þangað til við finnum okkur heimili. Það mætti því með sanni segja að við búum í ferðatöskum þessa dagana. Svo er ég á fullu að losa herbergið mitt hérna á Íslandi af alls kyns gömlu dóti svo að litli bróðir minn og kærastan geti gert eitthvað sniðugt við kjallarann.

Þetta eru allt einhvers konar tímamót í mínu lífi. Enginn skóli, nýtt land og nýtt heimili. Ég hef alltaf átt smá erfitt með breytingar en núna er ég full tilhlökkunar, bjartsýn og hamingjusöm. Það verður yndislegt að vera í Svíþjóð, nálægt fólkinu mínu bæði þar í landi og í Kaupmannahöfn og ég tala nú ekki um hvað það verður einfalt að hoppa heim til Íslands, hvað þá að fá heimsóknir þaðan.

Póstur á persónulegu nótunum til að kickstarta árinu!

Andrea Röfn

Endilega fylgist með mér á instagram – @andrearofn